Sextán ára unglingur var umkringdur í strætó af sérsveit ríkislögreglustjóra fyrr í dag. Guðmundur Heiðar Helgason upplýsingafulltrúi Strætó staðfesti við Fréttastofu RÚV að sérsveitin hafi farið inn í vagninn í leit að strokufanganum Gabríel Duoane Doama en drengurinn sem um ræðir er dökkur á hörund líkt og Gabríel.

Drengurinn var þó ekki handtekinn en að sögn sjónarvotta sem Fréttablaðið hefur rætt við umkringdi sérsveit drenginn og herma heimildir blaðsins að hann hafi orðið svo skelkaður eftir atvikið að hann treysti sér ekki til að vera lengur í strætisvagninum. Hringdu félagar hans á leigubíl og fylgdu honum heim í bílnum.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins fundar móðir drengsins nú með lögreglunni vegna málsins.

Lögreglan lýsti í gær eftir Gabríel sem slapp úr haldi lögreglunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem aðalmeðferð í sakamáli gegn honum fór fram.

Hann er enn ó­fundinn.

Uppfært klukkan 21.52

Lögreglan hefur sent frá sér yfirlýsingu um málið og í henni kemur fram að sérsveitin hafi ekki fjarlægt drenginn úr strætisvagninum eins og áður stóð í fréttinni. Lögreglunni hafi hins vegar borist ábending um að um strokufangann væri að ræða en sérsveitarmennirnir hafi séð strax þegar í vagninn var komið að ekki hafi verið um einstaklinginn að ræða sem leitað var að. Þeir hafi því yfirgefið vagninn aftur.

Við fréttina hefur einnig verið bætt nánari lýsingu á viðbrögðum drengsins og félaga hans í kjölfar atviksins, en heimildir Fréttablaðsins herma að þau hafi ekki treyst sér til að vera lengur um borð í strætisvagninum og fóruheim með leigubíl.