Sérsveit ríkislögreglustjóra var kölluð út á níunda tímanum í kvöld vegna tilkynningar um vopnaðan mann að fjölbýlishúsi að Rekagranda 7 í Reykjavík.

Íbúi sem Fréttablaðið ræddi við segir manninn hafa bankað á dyr íbúa og verið vopnaður hnífi. Allir hafi læst hurðum sínum í húsinu en maðurinn er íbúi þar sjálfur. Hann hafi barið á dyr og otað hnífnum út í loftið með ógnandi tilburðum.

„Þetta var frekar óhugnanlegt, að hann sé með hníf og að ota honum í allar áttir. Þetta er auðvitað svo rólegt hverfi,“ segir íbúinn. „Það eru allavega sjö lögreglumenn hérna fyrir utan húsið sem við sjáum og nokkrir bílar.“

„Ég talaði við nágrannann og við læstum að okkur og hringdum á lögregluna. Allir búnir að læsa að sér. Svo kom lögreglan og þá kom nágranninn minn hlaupandi og sagði að allir ættu að læsa að sér, hann væri með hníf og væri að ota honum í allar áttir.

Það er örugglega kominn klukkutími og ég skil ekki af hverju þeir gera ekki bara eins og í Ameríku, sparka upp hurðinni. Hann er semsagt búinn að læsa sig inni og neitar að koma út. Lögreglan er hérna enn þá og ég veit voðalega lítið hvað er að gerast. Við kíkjum út um gluggann öðru hvoru en það er enn fullt af lögreglu hérna en heyrist ekkert í raun.“

Ekki hefur náðst í sérsveitina við vinnslu þessarar fréttar. Von er á tilkynningu frá lögreglunni vegna málsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.