Karlmaður var stunginn með hnífi í heimahúsi á Kópaskeri í gærkvöldi. Þrír hafa verið handteknir og dvelur nú maðurinn á sjúkrahúsi á Akureyri.

Þetta kemur fram í færslu sem lögreglan á Norðurlandi eystra birti á Facebook í morgun en þau fengu tilkynningu þess efnis um klukkan 21.

Vegir ófærir að þorpinu

Árásarmaðurinn braut sér leið inn í húsið en var farinn þegar lögreglan mætti á vettvang. Þá var ekki vita hver árásamaðurinn væri. Slæmt veður var á Kópaskeri og vegir ófærir að þorpinu.

Maður og kona voru bæði á heimilinu en það var konan sem tilkynnti um árásina. Sjálf var hún óslösuð en lýsti alvarlegum áverkum á manninum.

„Þegar var óskað eftir útkalli sérsveitar Ríkislögreglustjóra með þyrlu, auk þess sem starfsmenn Vegagerðarinnar voru ræstir út til að opna lögreglunni leið eftir veginum. Lögreglumenn frá Akureyri og Húsavík fóru á staðinn ásamt rannsóknarlögreglumönnum og komu fyrstu menn á vettvang um kl. 22:50. Læknir sinnti þá þeim slasaða, sem var með takmarkaða meðvitund. Þyrla lenti með sérsveitarmenn á Kópaskeri um kl. 23:40,“ segir í tilkynningu lögreglu sem má sjá neðst í fréttinni.

Karlmaður á fimmtugsaldri var handtekinn á Kópaskeri. Tveir aðrir voru einnig handteknir og fluttir í fangageymslu á Akureyri.

Þrír handteknir

Maðurinn var fluttur með þyrlunni á Sjúkrahúsið á Akureyri. Hann er þar á gjörgæsludeild og er líðan hans sögð stöðug. Unnið var að því að upplýsa hver árásamðurinn væri í nótt en um klukkan 1 var meintur gerandi var handtekinn á Kópaskeri en það er karlmaður á fimmtugsaldri.

Tveir aðrir einstaklingar voru einnig handteknir og fluttir í fangageymslu á Akureyri, þar sem þeir verða yfirheyrðir. Að sögn lögreglu voru málsaðilar „ekki allsgáðir.“

Vettvangsrannsókn mun fara fram og verður metið hvort fari verði fram á gæsluvarðhald.