Rétt eftir mið­nætti var maður hand­tekinn á Siglu­firði. Maðurinn hafði verið með ógnandi til­burði og sagðist vera vopnaður hnífi. Sér­sveit ríkis­lög­reglu­stjóra á Akur­eyri var því kölluð út og hélt af stað á vett­vang en stuttu síðar náðu lög­reglu­menn á Siglu­firði að hand­taka manninn án vand­kvæða og var hann færður á lög­reglu­stöðina á Akur­eyri.

All­nokkur erill var hjá lög­reglunni á Norður­landi eystra í gær­kvöldi og nótt, þetta kemur fram í Face­book færslu þeirra.

Á níunda tímanum í gær­kvöldi var lög­reglu til­kynnt um vímaðan öku­mann á ferðinni þar sem maðurinn hafði einnig veist að konu og síðan ekið í burtu eftir það. Lög­reglu­menn gáfu bif­reiðinni stöðvunar­merki sem öku­maður sinnti ekki, ók hann því á­fram á ógnar­hraða „og skapaði með aksturs­lagi sínu mikla hættu.“

„Eftir nokkurra mínútna eftir­för sem endaði við iðnaðar­bil í bænum stökk maðurinn út úr bif­reiðinni en náðist skömmu síðar og var hand­tekinn og færður á lög­reglu­stöð og síðan vistaður í fanga­geymslum v. rann­sóknar málsins,“ segir í færslunni.

Féll fjóra metra

Þá fékk lög­reglan einnig til­kynningu um slys þar sem kona hafði fallið fjóra metra af bakka og niður í fjöru við Hauga­nes. Björgunar­sveitir voru kallaðar út vegna slyssins en voru af­boðaðar stuttu síðar þegar ljóst þótti að hægt var að koma konunni til að­stoðar frá landi. „Betur fór á en horfðist og konan lítið slösuð,“ segir í til­kynningunni.

Á fjórða tímanum í nótt fékk lög­reglan síðan beiðni frá bráða­mót­töku sjúkra­hússins á Akur­eyri vegna manns sem var þar ó­stýri­látur. Maðurinn hafði verið fluttur þangað af lög­reglu stuttu áður vegna á­stands síns. Málið leystist með sam­vinnu lög­reglu og heil­brigðis­starfs­manna.

„Lög­reglan á Norður­landi eystra óskar öllum vel­farnaðar og vonar að allir komist heilir heim eftir þessa miklu ferða­helgi,“ segir í lok færslunnar, sem sjá má hér að neðan.