„Ég sá að lögreglan var búin að loka veginum og stoppaði bílinn. Þá komu þrír lögreglumenn að og einn með skammbyssu,“ segir Höskuldur Pétur Jónsson, maður á áttræðisaldri sem var handtekinn af sérsveit lögreglunnar á sunnudag í Kjós.

Lögreglan segist hafa fengið tilkynningu um ógnandi tilburði og hættu á að vopnum yrði beitt. Höskuldur segir svo ekki vera en að lögreglan hafi brotist inn í hús dóttur hans og tekið óvirkan riffil. „Þetta er ágreiningsmál á milli manna þarna upp frá um girðingar,“ segir Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Það var grunur um að maður ætlaði að beita vopnum á hinn aðilann.“

Málið snýst í grunninn um landamerkjadeilu sem er í kæruferli á milli eigenda tveggja jarðarhluta sem áður tilheyrðu Þúfukoti. Taldi Höskuldur sig í rétti til að laga girðingu á hluta jarðarinnar sem hafði verið rifin niður. Segir hann girðinguna jafnframt innan veghelgunarsvæðis. Kom þá nágranninn að og munnhjuggust þeir í skamma stund, uns nágranninn fór og Höskuldur kláraði lagfæringuna.

Karl Magnús, oddviti Kjósárhrepps, segir að vitnum hafi fundist aðgerð lögreglunnar undarleg.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Ég spurði hvort þá vantaði eitthvað,“ segir Höskuldur um þá stund þegar hann mætti lögreglunni. „Rifu þeir þá upp hurðina, ég var tættur út úr bílnum, skellt í drulluna og handjárnaður.“ Hafi þetta gerst svo snöggt að ekki hafi gefist rúm til að setja bílinn í stöðvunargír og minnstu hafi munað að jeppinn endaði framan á lögreglubílnum. Lögreglan sjálf hafi rétt náð að stöðva jeppann.

Höskuldur, sem er 72 ára gamall og fatlaður eftir reiðslys, var ekki yfirheyrður á staðnum heldur var farið með hann á lögreglustöðina við Hlemm og hann vistaður þar í sex klukkutíma. Eftir skýrslutöku var honum sleppt, peningalausum og forugum.

Átti hann í erfiðleikum með að komast heim í Kjós aftur. Höskuldur segir að lögreglan hafi einnig ruðst inn í hús dóttur hans og gert þar mikla leit. Hafi hún tekið gamla rússneska og óvirka haglabyssu sem hékk uppi á vegg.

Valgarður segir að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir Höskuldi, heldur var honum sleppt eftir skýrslutöku. Aðspurður hvaðan upplýsingar um ógnanir hafi komið segir hann þær frá hinum aðilanum, nágrannanum.

„Hann hefur sjálfsagt haft í hótunum eða eitthvað álíka og þá förum við að gát í það og tryggjum allt og alla.“ Aðspurður hvort hann hafi beitt hótunum í garð nágranna síns segir Höskuldur svo ekki vera. Hann hafi þó verið reiður og bölvað. Fréttablaðið náði ekki tali af umræddum nágranna.

Karl Magnús Kristjánsson, oddviti Kjósarhrepps, segir handtökuna hafi verið í vitna viðurvist og að fólki hafi fundist þetta mjög undarleg aðgerð. Til dæmis að skammbyssu hafi verið miðað á Höskuld.

„Við skiljum ekki af hverju víkingasveitin var kölluð til út af svona smátilefni og okkur finnst eins og víkingasveitin sé orðin dálítið aðgangshörð,“ segir Karl og veltir því fyrir sér hvernig standi á því að hægt sé að kalla sveitina til án þess að kanna mál til hlítar.