Tæp tvö ár eru frá því borgar­stjórn Reykja­víkur sam­þykkti að fjár­festa 10 milljarða í staf­rænni um­breytingu á þriggja ára tíma­bili. Staðan var rædd á borgar­ráðs­fundi á fimmtu­dag.

Í bókun full­trúa Sjálf­stæðis­flokksins er bent á rann­sókn McKins­ey and Company sem sýnir að staf­ræn um­breyting hefur mis­tekist í minnst 70 prósentum til­vika.

„Helstu á­stæður þess eru taldar skortur á aga til þess að skil­greina og stíga réttu skrefin í upp­hafi staf­rænnar um­byltingar og ekki síður að halda fókus á meðan á ferlinu stendur. Það er því mikil­vægt að sýna verk­efninu að­hald og fylgjast með ráð­stöfun fjár­muna af gaum­gæfni,“ segir í bókun flokksins.

Af hálfu Flokks fólksins var bent á að starfs­menn sem vinna að verk­efninu fái sér­stök hlunnindi eins og sam­göngu­styrk, heilsu­ræktar­styrk og menningar- og sund­kort, einnig rafs­kútur til notkunar á vinnu­tíma.

„Nálgun sviðsins undan­farin ár hefur ein­kennst af fum­kenndri til­rauna­starf­semi þar sem miklum tíma og fjár­munum hefur verið eytt í að upp­götva hluti sem nú þegar eru til,“ segir í bókun Flokks fólksins.

Sjálf­stæðis­flokkurinn benti síðar á fundinum á að staf­ræn skráning starfs­manna borgarinnar í Ráð­húsinu og á Höfða­torgi virkaði ekki og hefði ekki gert í mörg ár.

„Úr­bætur varðandi þetta ein­falda at­riði myndi einnig ef­laust auka trú­verðug­leika Reykja­víkur­borgar gagn­vart starfs­fólki sínu og gera það já­kvæðara varðandi þá staf­rænu veg­ferð sem borgin er á.“