Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir að þátttaka barna sé mikilvæg en þegar börn taka þátt sé mikilvægt að öryggi þeirra sé tryggt og að allir sem komi að þátttöku þeirra séu þjálfaðir til að starfa með börnum.

Hvað varðar þátttöku barna í beinni útsendingu segir Salvör að það megi alveg skoða hvort útsendingin þurfi að vera í hreinni beinni útsendingu eða hvort það sé hægt að hafa örlitla seinkun, eins og 30 sekúndur, þannig að útsendingaraðili hafi rými til að bregðast við ef eitthvað kemur upp á í beinni útsendingu.

„Við leggjum mikla áherslu á að börn taki þátt og það sé þeirra réttur. Við viljum hvetja þau áfram til þátttöku en það er gríðarlega mikilvægt að þegar þau taka þátt þá séu í öruggu umhverfi og upplifi sig örugg,“ segir Salvör.

Hún segir mikilvægt að börnin séu vel undirbúin, haldinn sé fundur með þeim og þeim sagt frá leiðum sem þau geta nýtt sér ef þeim líður illa eða eitthvað kemur upp á.

„Það er mjög mikilvægt að þau viti hvernig þau eigi að bregðast við eða hvaða leiðir standa þeim til boða,“ segir Salvör.

Álag að vera í beinni útsendingu

Hún segir einnig mikilvægt að allir sem taki þátt í slíkri útsendingu séu meðvitaðir um hvernig eigi að bregðast við og að búið sé að fara yfir það sérstaklega með þeim.

„Það þekkja það allir sem hafa farið í beina útsendingu að það er álag. Fyrir alla. Maður veltir því fyrir sér hvort nauðsynlegt sé að hafa þátt í beinni útsendingu og ef hann er beinn hvernig er staðið að útsendingunni og hvort hún þurfi að vera alveg bein eða hvort hægt sé að hliðra henni aðeins til,“ segir Salvör.

Hún segir að þátttöku í keppnum fylgi mikið álag og aðstæðurnar séu sérstakar fyrir börnin sem eru að taka þátt. Sama hvort um ræði Skrekk, Skólahreysti eða Gettu betur. Svo megi ekki gleyma þeim raunveruleika sem við búum við í dag með samfélagsmiðla og Internet. Í beinni útsendingu sé skaðinn skeður og auðvelt sé að dreifa efni fljótt á aðra miðla.

„Það getur allt gerst og þegar börn eiga í hlut þá eigum við sérstaka skyldu og því er sérstök ábyrgð á útsendingaraðila,“ segir Salvör.

Hún ítrekar að þegar þátttaka barna er eigi að tryggja að það sé alltaf einhver á á hliðarlínunni sem sé vakandi fyrir því ef eitthvað fer úrskeiðis og að barnið viti hverjar sínar útgönguleiðir eru úr slíkum aðstæðum.

„Þau geta lent í erfiðum aðstæðum og það er gott fyrir þátttakendur að vita að útsendingin er ekki þráðbein og ef eitthvað gerist þá sé hægt að bregðast við því,“ segir Salvör að lokum.

Stefán Eiríksson er útvarpsstjóri
Mynd/Ragnar Visage

Þátttakendur fái þjálfun og stuðning hjá skólum

Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri, segir að starfsfólk RÚV búi yfir mikilli reynslu af þátttöku barna og ungmenna í útvarps- og sjónvarpsþáttum. Þar á meðal reynslu við að aðstoða þau við að takast á við það sem fylgir upptöku eða beinni útsendingu.

„Börn og ungt fólk kemur við sögu í fjölmörgum þáttum á RÚV og öll okkar dagskrárgerð miðast við þau gildi sem við vinnum út frá, m.a. um að efla og styrkja ungt fólk til virkrar þátttöku. Mjög algengt er að fulltrúar t.d. skóla, kennarar, þjálfarar eða aðrir fylgi börnum og ungu fólki sem kemur fram í útvarpi eða sjónvarpi og/eða forráðamenn þeirra,“ segir Stefán í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins um þátttöku barna, hvernig öryggi þeirra er tryggt og hvort að starfsfólk RÚV sé sérstaklega þjálfað til að vinna með börnum.

Stefán segir að gætt sé að öryggi allra þátttakenda í allri framleiðslu hjá RÚV.

„Börn og ungt fólk tekur þátt í ýmsum keppnum og sambærilegum viðburðum sem gerð eru skil í útvarpi og sjónvarpi og nægir þar að nefna viðburði á borð við Skrekk, Söngkeppni framhaldsskólanna og Gettu betur, sem hefur verið á dagskrá í ríflega þrjá áratugi í útvarpi og sjónvarpi. Þátttakendur í þessum viðburðum eru ekki valdir til þátttöku af RÚV heldur viðkomandi skólum og fá margskonar þjálfun og stuðning af þeirra hálfu sömuleiðis í tengslum við þá þátttöku. Viðburðum af þessu tagi er miðlað í beinni útsendingu eðli málsins samkvæmt,“ segir Stefán í svari sínu.

Þátttakendur í þessum viðburðum eru ekki valdir til þátttöku af RÚV heldur viðkomandi skólum og fá margskonar þjálfun og stuðning af þeirra hálfu sömuleiðis í tengslum við þá þátttöku. Viðburðum af þessu tagi er miðlað í beinni útsendingu eðli málsins samkvæmt

Börnum og ungmennum gefið tækifæri á þátttöku

Þá fjallar hann um bæði UngRÚV og KrakkaRÚV sem bæði þjónusta börn og ungmenni á Íslandi á sviði barnamenningar, fræðslu og þess háttar.

„Hjá RÚV er sérstök deild sem sérhæfir sig í því að búa til dagskrá fyrir og með börnum og ungmennum og hélt hún nýverið upp á 5 ára afmæli sitt. Sjónvarps- og útvarpsefni þar sem börn taka þátt er liður í þjónustu RÚV við börn og ungmenni og gert ráð fyrir því í þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðherra og RÚV. Í þessari dagskrárgerð er börnum og ungu fólki gefið tækifæri til þess að taka þátt og vera áberandi í dagskrárgerð fyrir sinn aldurshóp,“ segir Stefán.

Hann segir fjölmörg dæmi sem megi nefna um viðburði sem þar sem börn og ungmenni hafa tekið þátt eins og Barnamenningarhátíð, Sögur verðlaunahátíð, Söngkeppni framhaldsskólanna, Morfís, Dance World Cup, Skrekk, Skólahreysti og Gettu betur.

„Öllum þessum viðburðum hafa verið gerð skil í beinni útsendingu á miðlum RÚV og notið mikilla vinsælda. Þessu til viðbótar eru síðan margir þættir þar sem börn og ungmenni eru í forgrunni, líkt og Stundin okkar, Söguspilið, Krakkaskaupið, Sögur stuttmyndir og nýjasta afurðin þættir um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. RÚV mun áfram sinna þessum mikilvæga hópi og gera það af þeirri fagmennsku sem einkennt hefur þetta starf undanfarin ár og áratugi,“ segir hann að lokum.

Stefán var í tvígang spurður hvort að það kæmi til greina að seinka beinni útsendingu Gettu betur og annarra þátta á vegum RÚV þar sem börn taka þátt um hálfa mínútu svo hægt væri að bregðast við ef eitthvað kemur fyrir en svaraði því ekki beint heldur benti á svarið sem hér má sjá að ofan. Svar hans í heild sinni og spurningarnar sem honum voru sendar má sjá hér að neðan.