Vigdís Häsler Sveinsdóttir mun leiða þriggja manna starfshóp til að afla gagna og upplýsinga um starfsemi barnaheimilisins á Hjalteyri.

Þetta verður undirbúningsvinna áður en ákvörðun verður tekin um formlega rannsókn.

Jón Gunnarsson, nýr innanríkisráðherra, skipaði starfshópinn en í honum eru Ásgeir Örn Blöndal Jóhannsson lögmaður, og Halldór Þormar Halldórsson, umsjónarmaður sanngirnisbóta. Eins kemur Ingibjörg Gyða Guðrúnardóttir að hópnum sem tengiliður sanngirnisbóta.

Landsmenn voru slegnir óhug eftir afhjúpun sem fram kom í kvöldfréttum Stöðvar 2 um kynferðisbrot gegn börnum á vistheimili á Hjalteyri við Eyjafjörð en brotin áttu sér stað á sjöunda áratug síðustu aldar. Hjónin ráku einnig leikskóla í Garðabæ allt til ársins 2015.

Hjalteyri fór ekki fyrir vistheimilanefnd

Sérstök vistheimilanefnd var sett á laggirnar árið 2007 til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn, en sú nefnd hefur nú verið lögð niður að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Salvör Nordahl, umboðsmaður barna, sagði við Fréttablaðið á dögunum að Hjalt­eyrarmálið hafi komið henni á óvart.

„Maður taldi að það væri búið að ná utan um þau heimili sem voru starfrækt á þessum tíma, að vistheimilanefnd hefði lokað málunum. Það kemur mér þess vegna á óvart að enn séu að koma upp mál sem ekki fóru fyrir nefndina,“ segir Salvör.

Garðabær og Akureyri kanna störf hjónanna

Auk ríkisstjórnarinnar hefur bæjar­ráð Akur­eyrar­bæjar lagt til að of­beldi gegn börnum á barna­heimilinu á Hjalt­eyri á árunum 1972 til 1979 verði rann­sakað og að rann­sóknin verði bæði ítar­leg og opin­ber.

Nýlega var greint frá því að hjónin sem starf­ræktu barna­heimilið á Hjalt­eyri á áttunda ára­tugnum og beittu þar börn grófu of­beldi ráku einnig leik­skóla í Garða­bæ árin 1998 til 2015. Garða­bær hefur nú hafið vinnu við að afla frekari upp­lýsinga um störf þeirra í bænum.