Samkvæmt ferðaráðum utanríkisráðuneytisins sem voru uppfærð síðastliðinn föstudag er Ísland eina landið af Norðurlöndunum þar sem grímuskylda er í almenningsrýmum um þessar mundir.

Í Danmörku er aðeins grímuskylda á flugvöllum en þó mælt með grímunotkun við ákveðnar aðstæður. Í Finnlandi er engin skylda heldur en mælt með notkun í annasömum opinberum rýmum innandyra. Þá er ekki grímuskylda í Noregi og Svíþjóð og engin tilmæli um slíkt.

Á Íslandi voru reglur hertar á ný 12. nóvember og er skylt að nota grímu alls staðar þar sem ekki er hægt að virða eins metra reglu, svo sem í verslunum, almenningssamgöngum og starfsemi sem krefst nándar, til dæmis á hárgreiðslustofum.

Í Finnlandi, Svíþjóð, Danmörku og Noregi eru engin fjarlægðarmörk. Þá eru engar fjöldatakmarkanir í Svíþjóð, Danmörku og Noregi. Á sama tíma miðast almennar fjöldatakmarkanir á Íslandi við 50 manns en í því felst að fleiri en 50 mega ekki koma saman, hvort heldur er inni eða utandyra, í opinberum rýmum eða einkarýmum.

Samkvæmt utanríkisráðuneytinu eru Finnar með fjöldatakmarkanir í gildi upp að vissu marki á veitingastöðum og börum. Þar eru einnig takmarkanir á afgreiðslutíma og fjölda viðskiptavina eftir svæðum.

Þá verður að hafa í hug að smitfjöldinn er mismunandi á Norðurlöndunum en Danmörk leiðir Norðurlöndin þegar litið er til nýgengis smits með 629 smit á hverja 100.000 íbúa síðustu 14 daga (miðað við 19. nóvember).

Ísland er þar í öðru sæti með 584,7 smit á hverja 100.000 íbúa á síðustu 14 dögum (miðað við 23. nóvember). Noregur kemur þar á eftir með 390 smit á hverja 100.000 íbúa.

Finnland kemur þar á eftir með 165 smit en athygli vekur að Svíþjóð rekur lestina með einungis 101 smit á hverja 100.000 íbúa en Svíar hafa verið með afar vægar aðgerðir í gildi í faraldrinum.

Hvað varðar landamærin eru engar landamæratakmarkanir í Svíþjóð fyrir þá sem ferðast frá Íslandi eða öðrum Norðurlöndum til Svíþjóðar. Svíþjóð er einnig eina ríki Norðurlandanna sem krefst ekki forskráningar við komu til landsins.

Í Noregi er landið opið fyrir alla útlendinga sem hafa leyfi til að ferðast til Noregs samkvæmt útlendingalögum landsins. Allir eldri en 16 ára, sem ferðast til Noregs, þurfa að sýna fram á forskráningu.

Mismunandi sóttvarnareglur gilda við komu til Finnlands en farþegar frá lágáhættusvæðum eru undanþegnir öllum sóttvarnaráðstöfunum. Íslendingar þurfa ekki að sýna fram á neikvæða skimun við komuna til Danmerkur en Danir krefjast hins vegar bólusetningarvottorðs. Engin forskráning er nauðsynleg í Danmörku.

Bólusettir Norðurlandabúar sem ætla til Íslands þurfa aftur á móti að framvísa neikvæðu Covid-prófi áður en farið er um borð í flugvél. Forskráningar er einnig krafist en þeir sem geta ekki framvísað vottorði um neikvætt PCR-próf eða hraðpróf á landamærum Íslands fá 100 þúsund króna sekt og eru skyldaðir í sýnatöku á landamærunum.