Þorgrímur Þráinsson, sem smitaður er af COVID-19, keyrði tvo leikmenn íslenska landsliðsins í myndatöku fyrir leikinn gegn Rúmenum í síðustu viku þrátt fyrir að reglur UEFA leggi til aðskilnað milli starfsmanna og leikmanna.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að allra sóttvarna hafi verið gætt í bílferðinni. Leikmennirnir hafi ekki þurft að fara í sóttkví.

„Þetta var utan þess tíma sem smit Þorgríms var rakið en leikmennirnir fengu þarna heimild til að fara í myndatöku á heilbrigðisstofnun,“ segir Víðir.

Líkt og Fréttablaðið greindi frá í gær virtu starfsmenn KSÍ hvorki nálægðarmörk né grímuskyldu í leiknum gegn Rúmenum. Þá viðurkenndi Víðir að það hefðu verið mistök hjá sér að leyfa landsliðsþjálfurum að fara úr sóttkví á landsleik Íslands og Belgíu. Hann tók fulla ábyrgð á málinu í gær.

Athygli vakti að Arnar Þór Viðarsson stóð á hliðarlínunni gegn Belgum. Hann kom frá Lúxemborg um morguninn. Hann keyrði þaðan til Belgíu, áður en hann fór til Luton og flaug með Easy Jet til landsins.

Aðspurður hvort vera Arnars á hliðarlínunni samræmdist sóttvarnareglum segir Víðir að svo sé, Arnar hafi verið í vinnusóttkví. „Það þýðir að hann fór í test í Keflavík, svo fór hann beint á leikinn og svo í sóttkví eftir leik.“

Þorgrímur Þráinsson knúsar fyrirliðann Aron Einar Gunnarsson eftir sigurleikinn gegn Rúmeníu. KSÍ gat ekki framfylgt sínum eigin ströngu reglum.