Stjórnarandstæðingar í fjárlaganefnd segja mörgum spurningum enn ósvarað er varðar sölu Íslandsbanka. Sala á hlut rík­is­ins í Íslands­banka var til umræðu á Alþingi á fyrsta þingfundi ársins. Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og nefndarmaður í fjárlaganefnd, sagði að ekkert hafi verið sett í fangið á nefndinni nema hipsumhaps.

„Og það er ekki hægt að bera þetta saman við vel heppnað útboð hjá Icelandair, sem var jú ríkistryggt eins og við vitum, þar er ekki líku saman að jafna,“ sagði Inga á þingfundi.

Sérkennileg tímasetning

Fjárlaganefnd hefur fundað með umsagnaraðilum um málið, þar á meðal með forsvarsfólki Samtaka atvinnulífsins, Seðlabanka Íslands, ASÍ og Bankasýslu ríkisins. Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í fjárlaganefnd, segir að hraðinn og tímsetningin á einkavæðingu hafa verið gagnrýnd á fundi nefndarinnar.

„Það er mjög sérkennilegt að einkavæða banka rétt fyrir kosningar og þegar allt hagkerfið er í 100 ára djúpri kreppu og óvissa um eignasöfn. Við slíkar aðstæður fáum við verra verð og verri kaupendur,“ segir Ágúst Ólafur í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata sem situr einnig í nefndinni segir spurningum hafa verið velt upp um hvort greinargerð ráðherra væri nægilega ítarleg til að uppfylla allar stjórnsýslukröfur.

„Umsagnaraðilar hafa sagt að ekki sé nægilega vel staðið að rökstuðningi, til að mynda vantar greiningu á áhrifum á samkeppni eins og kemur skýrt fram í umsögn samkeppniseftirlitsins. Það vantar líka betri greiningu á því hvernig reikningsdæmið lítur út, hversu mikla vexti spörum við vegna lægri lántöku á móti væntum arðgreiðslum eða ef það á að nýta milljarðana í ný arðbær samfélagsverkefni og hversu arðbær þau eru,“ segir Björn Leví.

Eins er rökrætt um tímasetningu, hvort hún sé góð eða ekki. „Það væri tvímælalaust ekki góð hugmynd að selja núna, en það „gæti“ verið ágætur tími að selja um mitt árið þegar söluferlið klárar. Hvort það sé góð hugmynd þá er ekki hægt að svara nema við fáum betri greiningu á því hvað það þýðir. Hvaða forsendur þarf að uppfylla til þess að það teljist góð sala. Annars er það bara orð á móti orði þegar tilboð koma hvort þau eru góð eða ekki. Það er búist við um 37 milljörðum fyrir 25 prósent hlutinn, en það þarf að skoða það í víðara samhengi og þar er það sem rökstuðningurinn er ekki nægilega góður.“

Hugmyndafræðilegur ágreiningur

Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála­ráð­herra, sagðist telja hug­mynda­fræði­legan á­greining út­skýra á­hyggjur þing­manna af sölu á eignar­hlut ríkisins í Ís­lands­banka, á Al­þingi síðasta mánudag þar sem hann stóð fyrir svörum vegna málsins.

„Ég verð að spyrja mig á­leitinna spurninga um það hvort við getum ekki að lág­marki verið sam­mála um það að ef eignin er góð, því hærra verð til ríkis­sjóðs. Við erum ekki að af­henda neitt, við erum að selja.“