Félag sérkennara á Íslandi hefur sent frá sér afdráttarlausa yfirlýsingu, vegna fjölda fyrirspurna, þar sem bent er á að Anna Kolbrún Árnadóttir, þingkona Miðflokksins, hafi ekki verið ritstjóri fagtímaritsins Glæður, eins og hún heldur fram í ferilskrá sinni. Skorað er á Önnu Kolbrúnu að „leiðrétta ferilskrá sína í takt við það sem rétt er.“

Sjá einnig: Segja Önnu hafa notað starfsheiti þroskaþjálfa í óleyfi

„Ég sendi henni tölvupóst fyrir nokkru síðan þegar ég sá þetta fyrst og spurði hana hvenær hún hafi verið ritstjóri því ég myndi ekki til þess, hafandi verið í stjórn félagsins í níu ár og formaður síðustu sjö ár,“ segir Sædís Ósk Harðardóttir, formaður Félags sérkennara á Íslandi, í samtali við Fréttablaðið.

Sædís Ósk segir þingkonuna ekki enn hafa svarað tölvupóstinum. Hún segir Önnu Kolbrúnu hafa setið í ritstjórn blaðsins árin 2011 og 2101, ásamt fjórum öðrum, en þau ár hafi Hermína Gunnþórsdóttir ritstýrt tímaritinu.