„Ég á von á að það berist umsókn frá Finnum um aðild að NATO í lok maí eða í síðasta lagi í júní,“ hefur vefútgáfa norska blaðsins Verdens Gang eftir Mikael Wigell, rannsóknarforstjóra hjá utanríkismálastofnun Finnlands.

Kveðst Wigell jafnframt vænta þess að Svíar fylgi fordæmi Finna og óski eftir aðild að NATO um leið eða strax í kjölfarið. Wigell kom til Noregs til að ræða við starfsfélaga sína um öryggismál á Norðurlöndum eftir innrás Rússa í Úkraínu.

„Þrýstingur frá Rússum og tilraun til að hafa áhrif mun ekki breyta skoðun Finna eða hinu stjórnmálalega ferli,“ fullyrti Wigell við VG. Hins vegar hafi hann áhyggjur af þrýstingi Rússa á hin þrjátíu núverandi NATO-löndin sem þurfa að samþykkja umsóknir Finna og Svía.

Verdens Gang segir að aðeins Vinstriflokkurinn í Finnlandi hafi fallið frá fyrirvara sínum um að ganga úr stjórnarsamstarfinu verði Finnland meðlimur í NATO.

Í Svíþjóð er gert ráð fyrir að hinn ráðandi Sósíaldemókrataflokkur lýsi sýn sinni á umsókn um NATO-aðild í lok næsta mánaðar.

„Svíþjóð stendur frammi fyrir einni af stærstu ákvörðunum sínum í tvö hundruð ár,“ hefur VG eftir Björn Fägersten, sem leiðir starf sænsku utanríkismálastofnunarinnar gagnvart samstarfinu í Evrópu.