Ekki hefur enn tekist að endurheimta smáskilaboð úr símum Mette Frederikssen, forsætisráðherra Danmerkur, og þriggja annarra lykilstarfsmanna embættisins frá þeim tíma sem ákvörðun um að aflífa 17 milljónir minka á þremur korterum var tekin í nóvember 2020.

Frá þessu er greint ávef danska ríkisútvarpsins.

Sérfræðingar segja ekki hægt að endur­heimta skila­boðin sem annars hefðu getað hjálpað til við að varpa ljósi á á­kvörðun ríkis­stjórnarinnar um að farga öllum minka­stofninum þar í landi.

Ríkis­stjórn Dan­merkur hefur sætt mikilli gagn­rýni vegna málsins meðal annars frá full­trúum stjórnar­and­stöðunnar.

Sérstök minkanefnd var stofnuð í kjölfar málsins og miðar rannsókn hennar að því að leiða í ljós hvort lög hafi verið brotin með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að farga öllum minkastofninum þar í landi.

Eins og kunnugt er höfðu komið upp kórónuveirusmit í minkum sem síðan höfðu borist í fólk. Þróunin vakti mikinn ugg í Danmörku og öðrum löndum. Málið hefur ollið miklum usla í danskri pólitík.

Nefndin hefur stuðst við smáskilaboð yfirmanna í ráðuneytunum við rannsókn málsins en ljóst er að Mette og þrír aðrir embættismenn voru með síma sína stillta þannig að sjálfkrafa eyðast öll skilaboð eftir 30 daga.

Fjórmenningarnir eru þau einu af 61 einu vitni sem eiga ekki skilaboð frá þessum tíma. Minkanefndin hefur reynt að endurheimta skilaboðin, án árangurs.