Yfirlæknir Blóðbankans, ásamt fleiri sérfræðingum, gera verulegar athugasemdir við drög að reglugerðarbreytingum Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra, sem heimila samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð.

Í umsögn sem send var til heilbrigðisráðherra kemur m.a. fram að fyrirhugaðar breytingar séu ótímabærar og settar fram að illa ígrunduðu máli. Enn fremur segir að ef engar breytingar verði gerðar á drögunum „stefni þjónusta Blóðbankans í tímabil óvissu.“ Blóðbankanum beri að tryggja öryggi allra blóðþega og innleiðing fyrirhugaðrar reglugerðar með svo skömmum fyrirvara „grafi undan tiltrú almennings á blóðbankaþjónustunni“ og „geti haft afleiðingar fyrir blóðgjafa og blóðþega.“ Sérfræðingar Blóðbankans setja einnig út á orðalag reglugerðarbreytinganna, þar á meðal að heilbrigðisráðherra tilgreini að „ómálefnalegar ástæður“ liggi að baki núgildandi lögum.

Sveinn Guðmundsson yfirlæknir Blóðbankans er ábyrgðarmaður umsagnarinnar, en auk hans skrifa undir umsögnina þau Ína Björg Hjálmarsdóttir deildarstjóri Blóðbankans, Erna Knútsdóttir gæðastjóri Blóðbankans, Ólafur Eysteinn Sigurjónsson einingarstjóri stofnfrumuvinnslu og vísindarannsókna og Þorbjörn Jónsson sérfræðilæknir.

Leggja til tímasetta áætlun

Sérfræðingarnir leggja jafnframt til að fara skuli eftir „tímasettri áætlun í áföngum sem miðar að því að rýmka heilsufarsskilmerki blóðgjafa án þess að auka áhættu blóðþega.“ Það sé gert með endurteknum áhættugreiningum, kjarnsýruskimunum og undirbúningi og innleiðingu smithreinsunar á rauðkornum sem gert verði á næstu fimm árum. Áfangaskipt innleiðing breytinga stuðli að betri upplýsingagjöf til almennings og fagfólks og í leiðinni að betri árangri, samkvæmt sérfræðingum Blóðbankans.

Blóðbankinn leggur einnig til að bætt verði inn í reglugerðarbreytingarnar að: „Skilmerki heilbrigðisyfirvalda um hæfi blóðgjafa til að gefa blóð skulu ætíð byggð á faglegum forsendum í kjölfar áhættugreiningar í íslensku þýði og að fengnu áliti ráðgjafanefndar um fagleg málefni blóðbankaþjónustu, Lyfjastofnunar, Sóttvarnaráðs, Landspítala og Blóðbankans í öllum mikilvægum málum.”

Blóðbankinn segir að „fagleg sjónarmið séu grundvöllur heilsufarsskilmerkja blóðgjafa.“ Dæmi um áhættugreiningar frá Kanada og Englandi hafi gefið góða raun og ýta undir þau faglegu sjónarmið. Þá er sömuleiðis tekið fram að tekið hafi þau lönd 12-22 ár að innleiða breytingar á borð við þessar.