Sigurður Ægis­son, sóknar­prestur á Siglu­firði, segir farir sínar ekki sléttar vegna lausa­göngu katta í bænum. Kattar­eig­endur á Face­book fara hörðum orðum um Sigurð vegna aug­lýsingar hans í bæjar­blaðinu þar sem hann gagn­rýnir lausa­gönguna á varp­tíma.

„Ég hef verið að merkja fugla fyrir Náttúru­fræði­stofnun í 30 eða 40 ár eða hvað það er og við erum alltaf með gildrur úti og kettir hafa verið að snudda þarna í kring, farið í gildruna og annað,“ segir Sigurður.

Í bæjar­blaðinu lætur hann mynd fylgja af ketti með fugl í kjaftinum. Hann segist hafa lagt til við bæjar­yfir­völd að lausa­gangan yrði bönnuð á varp­tíma fugla í sumar. Það hafi verið sam­þykkt í um­hverfis-og tækni­nefnd en strandað í bæjar­stjórn. „Hún stóð ekki í lappirnar vegna utan­að­komandi þrýstings kattar­eig­enda.“

Mikill hiti er í um­ræðunni um á­bendingu Sigurðar á Face­book hópi kattar­eig­enda. Segist einn meðal annars ekki hafa neina á­stæðu til að ætla að presturinn sé sjálfur græn­metis­æta. Sigurður segist hafa séð um­ræðuna á sam­fé­lags­miðlinum.

Mikill hiti er í umræðunni meðal kattareigenda um auglýsingu Sigurðar.
Fréttablaðið/Skjáskot

Sefur rótt þrátt fyrir heiftina í umræðunni

„Málið er bara þetta, auð­vitað þurfa hlutirnir að ganga fyrir sig á eðli­legan hátt. Málið er það að hrafnarnir þurfa að éta, mávarnir þurfa að éta. En kötturinn er að­skota­dýr í náttúru Ís­lands. Alveg eins og minkurinn. Og maðurinn líka. En mann­skepnan hefur þó ein­hverjar reglur sem hún fylgir,“ segir Sigurður.

„Ég vil bara opna augu fólks fyrir því að það er ekkert eðli­legt að hunda­eig­endur þurfi að ganga á eftir hundum sínum með poka til að taka upp allt sem þeir láta frá sér en kattar­eig­endur hafa bara opinn glugga og vatn heima og svo sjá dýrin bara um sig sjálf. Fara í sand­kassa í næsta garði þar sem krakkarnir hafa verið að leika og skíta í sandinn og míga og enginn ber á­byrgð. Það er þetta sem ég er að reyna að benda á.“

Hann segist alveg sofa þrátt fyrir heiftina í um­ræðunni. „Kattar­eig­endur taka þessu sem per­sónu­legri árás. Þeir vita upp á sig skömmina í mörgum til­vikum út af þessu. ef að þeir þyrftu allt í einu að fara að halda ketti inni, á varp­tíma fugla, hefðu þeir engan á­huga á að hafa þann kött,“ segir Sigurður.

Hann segir að ef til­laga hans um að banna lausa­göngu katta á varp­tíma verði ekki sam­þykkt muni hann leggja til að lausa­ganga hunda verði leyfð. „Bara til jafns við ketti. Af hverju á að taka á köttum með silki­hönskum? Þeir eru mígandi og skítandi úti um allt. Það má ekki vera opinn gluggi á jarð­hæð, þá er köttur kominn inn.“

Hefurðu rætt þetta sjálfur við kattar­eig­endur?

„Nei, nei, ekki nema bara í góðu. Ég fer ekki út í um­ræðu á Face­book, vegna þess að það er ekki hægt. Ég bara sendi inn þessa aug­lýsingu,“ segir Sigurður. Núna ætli bæjaryfirvöld að taka saman töl­fræði og halda lista yfir kvartanir vegna lausa­göngu katta.

„Svo í haust á um­hverfis-og tækni­nefnd að endur­skoða þessar reglur,“ segir Sigurður. Hann bendir á að lausa­gangan hafi verið bönnuð á Húsa­vík allt árið um kring og segir það ganga vel. „Ég er bara að reyna að opna augu fólks fyrir þessu, að það sé ekki eðli­legt að þetta sé svona.“