Séra Sigríður Guðmarsdóttir segir hatursorðræðu vera skilgreint hugtak sem nái yfir kerfisbundna ofbeldisorðræðu gegn minnihlutahópum vegna kynhneigðar, kynferðis, þjóðernis, trúarbragða og kynþáttar þess hóps.
Frá þessu greinir Sigríður á Facebook-síðu sinni í morgun en þar tekur hún upp hanskann fyrir séra Davíð Þór Jónsson og færslu hans á Facebook í gær sem hann hefur verið gagnrýndur fyrir.
Davíð Þór var harðorður í garð flokksmenn Vinstri grænna og sagði það eiga helvítisvist vísa vegna væntanlegra brottvísana flóttamanna hér á landi.
„Þingið og ráðherrar VG eru ekki lengur bara meðsek um glæpi þessarar ríkisstjórnar gegn mannúð og góðu siðferði, þau eru einfaldlega sek eins og syndin. Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ sagði Davíð Þór meðal annars í færslu sinni.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í gær yfirlýsingu Davíðs Þórs stangast á við siðareglur presta. Þá hefur Orri Páll Jóhannsson, þingmaður og þingflokksmaður Vinstri grænna, fordæmt yfirlýsingu Davíðs Þórs og sagt ummælin ala á hatursorðræðu í samfélaginu.
Sigríður segir að þó hægt sé að hafa ýmsar skoðanir á því hvaða orðfæri prestar noti til að koma skoðunum sínum á framfæri sé erfitt að koma auga á þann vinkil á ræðu Davíðs Þórs sem geti vísað til hatursorðræðu.
„Ríkisstjórnin er ekki minnihlutahópur. Fyrir þau sem vilja kynna sér hatursorðræðu nánar bendi ég á ágætan bækling frá Mannréttindaskrifstofu Íslands,“ segir Sigríður í lok færslu sinnar.
Davíð Þór sagði sjálfur í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi að hann standi við orð sín og að hann eigi rétt á persónulegum skoðunum. Afstaða hans sé ekki opinber afstaða Þjóðkirkjunnar.