Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju hafa tekið gilda afsökunarbeiðni séra Maríu Guðrúnar Ágústsdóttur, prests í Fossvogsprestakalli, vegna orða hennar í predikun fyrir ellefu árum síðan.

María segir að með tímanum hafi hún gert sér betur grein fyrir orðum sínum. „Þegar ég horfi til baka skil ég kórfélagana vel og ég sé mikið eftir þessu öllu saman,“ segir hún.

Jólatónleikar Mótettukórsins
Mynd/motettukorinn.is

María, sem átti samskipti við Mótettukórinn þegar hún leysti af í Hallgrímskirkjunni, fjallaði um „hefðbundinn skilning“ á hjónabandi í sunnudagspredikun. Á þeim tíma lá fyrir að lögleiða hjónaband samkynhneigðra sem stóð sumum kórfélögum nærri.

Atvikið í forkirkjunni

Séra María hefur lýst sem „algjörri niðurlægingu“ atviki í forkirkju Hallgrímskirkju þennan sunnudag sumarið 2010 að lokinni predikun þegar meðlimir kórsins hefðu neitað að taka í hönd hennar og einhver á leið út úr kirkjunni hreytti í hana að hún væri „kjáni“. Á þeim tíma segist María hafa verið hikandi gagnvart nýju lagasetningunni og haft sem formaður Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga átt þátt í að senda inn neikvæða umsögn um frumvarp um ný hjúskaparlög.

Strax eftir atvikið skrifaði María afsökunarbréf til kórsins. Það virðist ekki hafa borist öllum í kórnum en það vissi hún ekki fyrr en umræða um málið kom upp á Facebook í vikunni. Nokkrum árum eftir uppákomuna skrifaði María einnig nokkrum félögum kórsins bréf með ósk um fyrirgefningu eftir að bréf frá fjórum úr kórnum var sent biskupsstofu þegar Maríu sótti um embætti við Hallgrímskirkju.

Skrifstofustjóri biskupsstofu ljósritaði bréfið og sendi allri sóknarnefndinni án þess að láta Maríu vita fyrr en eftir á. Það var mikið áfall fyrir Maríu.

Var mér um megn að leysa þetta

„Ég vissi ekki að kórfélagar væru enn sárir út í mig, enda hafði ég margoft leyst prestana í Hallgrímskirkju af eftir þessa umræddu predikun og þjónað með Mótettukórnum við þau tækifæri,“ segir hún.

„Það sem vantaði var að ég gæti átt samtal við þau og ég hefði átt að biðja um aðstoð vegna þess. Það var mér um megn við að leysa þetta á þessum tíma,“ útskýrir María áfram í samtali sínu við Fréttablaðið.

„Ég er meira en fús að biðja allt hinsegin samfélagið fyrirgefningar,“

Breytt viðhorf kom fram í predikun Maríu í Grensáskirkju í fyrra þar sem hún fagnaði áratug síðan hjúskparlögum var breytt
Mynd/aðsend

Í umræðum á Facebook skrifar séra María: „Og ég get vel endurtekið fyrirgefningarbeiðni mína til allra hlutaðeigandi, það er mér ljúft og skylt enda hef ég löngu séð ljósið og fellst alls ekki á viðhorf sem gengisfella manneskju vegna kynhneigðar hennar.“

Breytt viðhorf kom skýrt fram í predikun Maríu í Grensáskirkju í fyrra, þegar áratugur var liðinn frá breytingu á hjúskaparlögum sem hún fagnaði heilum hug.

„Ég er meira en fús að biðja allt hinsegin samfélagið fyrirgefningar,“ segir séra María.

Fréttablaðið/Anton Brink

Áratuga óuppgert mál kórfélaga gagnvart Maríu flaut upp á yfirborðið í kjölfar uppsagnar Harðar Áskelssonar organista en tengdist því máli alls ekki. Ljóst varð að enn voru kórmeðlimir reiðir eða jafnvel heiftúðugir út í Maríu.

„Mér fannst sársaukafullt að komast að því að ennþá var beiskja út í mig, ég áttaði mig ekki á því að fólki þarna í kórnum hafi fundist ég vera vond manneskja allan þennan tíma,“ segir María við Fréttablaðið.

Mikið hefur verið rætt á Facebook vegna þessa og einn þeirra sem málinu tengist skrifar: „Við vorum að sjálfsögu sammála um að taka afsökunarbeiðni Maríu fagnandi og báðum hana afsökunar á okkar þvergirðingi“.