Gunnlaugur Garðarsson, fyrrverandi sóknarprestur í Glerárkirkju á Akureyri, vill að fulltrúar á kirkjuþingi flýti sér hægt við að samþykkja tillögu Agnesar M. Sigurðardóttur biskups um fjárveitingar til frekari vinnu vegna stefnumótunar í samskipta-, ímyndar- og kynningarmálum þjóðkirkjunnar.

Við fyrstu umræðu um tillögu biskups á kirkjuþingi kvaddi Gunnlaugur sér hljóðs áður en tillögunni var vísað beint til annarrar umræðu og meðferðar í allsherjarnefnd þingsins.

„Það er nóg af peningum til og margt skemmtilegt sem hægt er að gera, margt æðislegt. Þetta er eflaust eitt af því,“ sagði Gunnlaugur og vísaði til þess að tillaga biskups felur í sér 22 milljóna króna kostnað fyrsta árið, að langmestu leyti vegna fjölgunar stöðugilda á biskupsstofu.

„Og við erum að fara í niðurskurð og fækkun prestsembætta,“ minnti Gunnlaugur á með vísan í aðra tillögu á kirkjuþingi um niðurskurð hjá kirkjunni vegna eins milljarðs króna hallareksturs á tveimur árum.

„Æðislega gaman,“ hélt Gunnlaugur áfram. „Elskurnar mínar, ég er orðinn ringlaður. Hvar erum við stödd?“

„Elskurnar mínar, ég er orðinn ringlaður. Hvar erum við stödd?“

Sagði hann að vissulega þyrfti kirkjan að vera framsækin. „En grunnþjónustan er skylda: við ætlum að þjóna öllu landinu. Flýtum okkur hægt elsku vinir,“ bað séra Gunnlaugur.

Arna Grétarsdóttir, sóknarprestur í Lágafellskirkju í Mosfellsbæ, sagðist hins vegar hvetja kirkjuþing til að taka tillögu biskups fagnandi og standa stolt sem þjóðkirkja. Málinu var vísað til annarrar umræðu sem fyrr segir.