Leyfi séra Gunnars Sigurjónssonar, sóknarprests í Digranes- og Hjallaprestakalli, hefur verið framlengt í annað sinn, nú til 1. júlí næstkomandi.
Séra Gunnar var sendur í leyfi í desember síðastliðnum vegna ásakana sex kvenna um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan kirkjunnar. Upphaflega átti leyfið að standa til 1. mars en var framlengt til 1. maí.
„Þetta er náttúrulega flókið og margslungið mál og í mörg horn að líta þannig að þau þurftu bara aðeins lengri tíma,“ sagði Sunna Dóra Möller, settur sóknarprestur við Digranes- og Hjallaprestakall, við Fréttablaðið 2. mars.
Að minnsta kosti sjö mál tengd Gunnari eru til rannsóknar hjá óháðu teymi þjóðkirkjunnar.
Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er rannsókn á málinu að síga á seinni hlutann þótt ekki hafi náðst að ljúka því fyrir 1. maí.