Óháða teymi þjóðkirkjunnar sem hefur haft mál prests til rannsóknar vegna ásakana um kyn­ferðis­lega á­reitni, kyn­bundið of­beldi og ein­elti innan kirkjunnar hefur nú sent frá sér skýrslu vegna málsins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða mál séra Gunnars Sigurjónssonar, sóknarprests í Digranes- og Hjallaprestakalli.

Pétur Georg Markan, bikupsritara Biskupsstofu, gat ekki tjáð sig um mál einstaka presta en staðfestir við Fréttablaðið að einum presti hafi verið gefinn frestur til andsvara til 1. september næstkomandi.

Ætla má að leyfi Gunnars sem átti að renna út á morgun, 1. júlí, muni því sjálfkrafa framlengjast um því sem fresti til andsvara nemur.

Greint hefur verið frá því að séra Gunnar hafi verið sendur í leyfi í desember síðastliðnum vegna ásakana.

Tjá sig ekki um einstaka mál

Bragi Björnsson, lögmaður og formaður teymis þjóðkirkjunnar, segir teymið ekki veita upplýingar um einstök mál. Hann vildi því ekki staðfesta hvort málið væri í athugasemdafresti eða ekki.

Hins vegar sé málsaðilum, bæði þolendum og meintum gerendum mála, gefinn kostur á að gera athugasemdir við drög að áliti teymisins áður en teymið skilar endanlegu áliti.

Að jafnaði sé aðilum gefinn tveggja vikna frestur en sé lengri frests óskað sé hann veittur og að allir aðilar málsins fái þá þann frest.

Leyfið framlengt í þriðja sinn

Sex konur ásökuðu Gunnar um kyn­ferðis­lega á­reitni, kyn­bundið of­beldi og ein­elti innan kirkjunnar.

Upp­haf­lega átti leyfið að standa til 1. mars en var síðan fram­lengt til 1. maí og nú er ljóst að leyfi Gunnars hafi verið framlengt í þriðja sinn.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var teymi þjóðkirkjunnar með að minnsta kosti sjö mál tengd Gunnari til rann­sóknar.

Kórinn lét af störfum

Fréttablaðið greindi frá því í febrúar síðastliðnum að Kór Hjallakirkju hefði lagt niður störf í apríl 2021 eftir 34 ára starf vegna framkomu Séra Gunnars í garð Láru Bryndísar Eggertsdóttur, kórstjóra og organista, eftir að hún greindi frá samstarfsörðugleikum milli sín og séra Gunnars.

Sjálf sendi Lára sitt mál til teymis þjóðkirkjunnar í júní 2021 en hún fór í veikindaleyfi vegna málsins fyrri hluta árs 2021 og sagði svo formlega upp störfum í apríl sama ár.

Blöskraði framkoman

Í febrúar hafði Fréttablaðið eftir stjórnarmeðlimi í Kór Hjallakirkju að kórfélögum hafi blöskrað framkoman í garð Láru eftir að hún greindi frá málinu.

Þá sagði séra Sunna Dóra Möller, settur sóknarprestur í Digranes- og Hjallaprestakalli, í samtali við Fréttablaðið í febrúar að starfið innan kirkjunnar hafi ekki verið auðvelt frá því að málið kom upp.

Ákveðið óvissuástand ríkti innan kirkjunnar og að margir upplifðu sorg og ákveðin áföll sem væri eðlilegt.

Sunna Dóra sagði jafnframt að henni þætti líklegt að margir innan kirkjunnar myndu hugsa sinn gang ef Gunnar myndi snúa aftur til starfa. Hvort þeir myndu telja sig stætt af því að starfa með meintum geranda.