Teymi innan Þjóðkirkjunnar, sem hefur rannsakað mál séra Gunnars Sigurjónssonar, sóknarprests við Digranes- og Hjallaprestakall, hefur lokið störfum og komist að þeirri niðurstöðu, í samráði við biskup, að Gunnar komi ekki aftur til starfa sem sóknarprestur. Hann hefur látið af störfum við prestakallið og áformað er að veita honum skriflega áminningu. Þó er í vinnslu milli Gunnars og biskups að hann fái starf innan kirkjunnar.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Biskupsstofu.
Gunnar var settur í leyfi frá störfum í desember síðastliðnum vegna ásakana sex kvenna um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti. Í kjölfarið var óháð teymi sett saman af hálfu kirkjunnar til að taka málið til rannsóknar. Teymið, sem starfar fyrir utan allar stofnanir kirkjunnar, er samsett af lögfræðingi, geðlækni og teymisstjóra Bjarkarhlíðar.
„Niðurstaða Teymis þjóðkirkjunnar er að sóknarpresturinn hafi í tíu tilvikum orðið uppvís að háttsemi sem stríði gegn ákvæðum 3. gr. EKKO rg. auk þess sem teymið metur háttsemi sóknarprestsins í orði og athöfnum, eins og henni hefur verið lýst, ósæmilega, óhæfilega og ósamrýmanleg starfi hans sem sóknarprestur,“ segir í tilkynningunni.
Í tveimur tilvikum metur teymið háttsemi sóknarprestsins svo, að hann hafi orðið uppvís af orðbundinni kynferðislegri áreitni gagnvart tveimur þolendum. Í þremur tilvikum metur teymið að sóknarpresturinn hafi orðið uppvís af orðbundinni kynbundinni áreitni gagnvart tveimur einstaklingum.
Í niðurlagi tilkynningar kemur fram að Þjóðkirkjan harmi þann sársauka sem þolendur hafi upplifað og að kirkjan hafni allri ofbeldismenningu og standi ávallt með þolendum.