Teymi innan Þjóð­kirkjunnar, sem hefur rann­sakað mál séra Gunnars Sigur­jóns­sonar, sóknar­prests við Digranes- og Hjallaprestakall, hefur lokið störfum og komist að þeirri niður­stöðu, í sam­ráði við biskup, að Gunnar komi ekki aftur til starfa sem sóknarprestur. Hann hefur látið af störfum við prestakallið og á­formað er að veita honum skrif­lega á­minningu. Þó er í vinnslu milli Gunnars og biskups að hann fái starf innan kirkjunnar.

Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Biskups­stofu.

Gunnar var settur í leyfi frá störfum í desember síðast­liðnum vegna á­sakana sex kvenna um kyn­ferðis­lega á­reitni, kyn­bundið of­beldi og ein­elti. Í kjöl­farið var óháð teymi sett saman af hálfu kirkjunnar til að taka málið til rann­sóknar. Teymið, sem starfar fyrir utan allar stofnanir kirkjunnar, er sam­sett af lög­fræðingi, geð­lækni og teymis­stjóra Bjarkar­hlíðar.

„Niður­staða Teymis þjóð­kirkjunnar er að sóknar­presturinn hafi í tíu til­vikum orðið upp­vís að hátt­semi sem stríði gegn á­kvæðum 3. gr. EKKO rg. auk þess sem teymið metur hátt­semi sóknar­prestsins í orði og at­höfnum, eins og henni hefur verið lýst, ó­sæmi­lega, ó­hæfi­lega og ó­sam­rýman­leg starfi hans sem sóknar­prestur,“ segir í til­kynningunni.

Í tveimur til­vikum metur teymið hátt­semi sóknar­prestsins svo, að hann hafi orðið upp­vís af orð­bundinni kyn­ferðis­legri á­reitni gagn­vart tveimur þol­endum. Í þremur til­vikum metur teymið að sóknar­presturinn hafi orðið upp­vís af orð­bundinni kyn­bundinni á­reitni gagn­vart tveimur ein­stak­lingum.

Í niður­lagi til­kynningar kemur fram að Þjóð­kirkjan harmi þann sárs­auka sem þol­endur hafi upp­lifað og að kirkjan hafni allri of­beldis­menningu og standi á­vallt með þol­endum.