Leyfi séra Gunnars Sigurjónssonar, sóknarprests í Digranes- og Hjallaprestakalli, hefur verið framlengt til 1. maí næstkomandi.

Þetta staðfestir Sunna Dóra Möller, settur sóknarprestur við Digranes- og Hjallaprestakall, í samtali við Fréttablaðið.

Gunnar var settur í leyfi í desember síðastliðnum vegna ásakana sex kvenna um kynferðislega áreitni, kynbundið ofbeldi og einelti innan kirkjunnar.

Upphaflega stóð til að Gunnar yrði í leyfi fram til gærdagsins, eða 1. mars, á meðan málið er til rannsóknar hjá óháðu teymi sem starfar utan við allar stofnanir kirkjunnar.

„Staðan er þannig að það er ekkert að frétta. Málin liggja hjá teyminu og við bíðum eftir því að niðurstaða skili sér. Þetta er náttúrulega flókið og margslungið mál og í mörg horn að líta þannig að þau þurftu bara aðeins lengri tíma til að fara yfir þetta og hann var settur í leyfi í allavega tvo mánuði í viðbót,“ segir Sunna Dóra og bætir við að hún hafi fengið fréttirnar síðastliðinn föstudag.

Að minnsta kosti sjö mál tengd Gunnari eru nú til rannsóknar.