Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það ekki koma til greina eins og er að endurskoða nýja reglugerð sína, sem tók gildi síðasta fimmtudag og skyldar alla sem koma til landsins til að dvelja á sóttkvíarhóteli í fimm daga.
„Ég hef ekki séð neitt sem í raun og veru ætti að rökstyðja það, að svo stöddu,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið. „Ég held að það sé mikilvægt að fólk gleymi því ekki um hvað þetta snýst. Þetta snýst um heimsfaraldur og að ná tökum á heimsfaraldri og koma í veg fyrir útbreiðslu hans.“
Óvenjumikil gagnrýni
Reglugerðin hefur sætt óvenjumikilli gagnrýni síðan hún tók gildi. Þar hafa Íslendingar, sem þurfa að dvelja á sóttkvíarhótelinu og fá ekki að taka sóttkvína út á heimilum sínum, farið fremstir í flokki. Flestir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa þá efast um lögmæti aðgerðanna og margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins einnig.
Að minnsta kosti tvær kröfur hafa verið lagðar fyrir héraðsdóm fyrir hönd Íslendinga sem dvelja á sóttkvíarhótelinu. Þar verður látið reyna á það hvort ráðherrann hafi heimild í sóttvarnalögum til að svipta Íslendinga frelsi og halda þeim á sóttkvíarhótelinu.
Spurð hvort hún hafi áhyggjur af þessum efasemdum um lagalega heimild hennar segir Svandís: „Að sjálfsögðu telur ráðuneytið að reglugerðin sé byggð á traustum lagagrunni.“
Ekki hægt að ákveða ásættanlegan fjölda veikra
Hún segir að málið hafi verið lengi í undirbúningi og rætt á tveimur ríkisstjórnarfundum eftir að sóttvarnalæknir hafði skilað inn sínum tillögum um málið. Spurð hvort gagnrýnin hafi komið sér á óvart segir Svandís:
„Nei, nei. Ég held að það sé bara sjálfsagt að ræða þessi mál og fara yfir þau. Það er bara heilbrigt. En þetta er aðgerð sem snýst um að draga úr líkum á að smit berist inn í landið. Við sjáum það bara strax að nokkur smit hafa greinst á sóttkvíarhótelinu.“
Einhverjir þingmenn hafa undrað sig á svo hörðum aðgerðum á meðan smitin í samfélaginu eru ekki nálægt því sem mest var í síðustu bylgjum. Þar hafa komið upp spurningar um hvort yfirlýst markmið stjórnvalda um að vernda heilbrigðiskerfið og fletja kúrfuna hafi breyst og snúist nú frekar um að gera landið alltaf smitlaust.
„Markmiðið er alltaf að lágmarka smit í samfélaginu,“ segir Svandís við þessu. „Ég held að enginn geti ákveðið það fyrir fram að það sé einhver tiltekinn fjöldi smita eða tiltekinn fjöldi veikra sem er hæfilegur og síðan miðað allt út frá því. Markmiðið verður að vera að lágmarka áhættuna á smiti inn í landið og hindra útbreiðslu faraldursins.“