Svan­dís Svavars­dóttir heil­brigðis­ráð­herra segir það ekki koma til greina eins og er að endur­skoða nýja reglu­gerð sína, sem tók gildi síðasta fimmtu­dag og skyldar alla sem koma til landsins til að dvelja á sótt­kvíar­hóteli í fimm daga.

„Ég hef ekki séð neitt sem í raun og veru ætti að rök­styðja það, að svo stöddu,“ segir hún í sam­tali við Frétta­blaðið. „Ég held að það sé mikil­vægt að fólk gleymi því ekki um hvað þetta snýst. Þetta snýst um heims­far­aldur og að ná tökum á heims­far­aldri og koma í veg fyrir út­breiðslu hans.“

Óvenjumikil gagnrýni

Reglu­gerðin hefur sætt ó­venju­mikilli gagn­rýni síðan hún tók gildi. Þar hafa Ís­lendingar, sem þurfa að dvelja á sótt­kvíar­hótelinu og fá ekki að taka sótt­kvína út á heimilum sínum, farið fremstir í flokki. Flestir stjórnar­and­stöðu­flokkarnir hafa þá efast um lög­mæti að­gerðanna og margir þing­menn Sjálf­stæðis­flokksins einnig.

Að minnsta kosti tvær kröfur hafa verið lagðar fyrir héraðs­dóm fyrir hönd Ís­lendinga sem dvelja á sótt­kvíar­hótelinu. Þar verður látið reyna á það hvort ráð­herrann hafi heimild í sótt­varna­lögum til að svipta Ís­lendinga frelsi og halda þeim á sótt­kvíar­hótelinu.

Spurð hvort hún hafi á­hyggjur af þessum efasemdum um lagalega heimild hennar segir Svan­dís: „Að sjálf­sögðu telur ráðu­neytið að reglu­gerðin sé byggð á traustum laga­grunni.“

Ekki hægt að ákveða ásættanlegan fjölda veikra

Hún segir að málið hafi verið lengi í undir­búningi og rætt á tveimur ríkis­stjórnar­fundum eftir að sótt­varna­læknir hafði skilað inn sínum til­lögum um málið. Spurð hvort gagn­rýnin hafi komið sér á ó­vart segir Svan­dís:

„Nei, nei. Ég held að það sé bara sjálf­sagt að ræða þessi mál og fara yfir þau. Það er bara heil­brigt. En þetta er að­gerð sem snýst um að draga úr líkum á að smit berist inn í landið. Við sjáum það bara strax að nokkur smit hafa greinst á sótt­kvíar­hótelinu.“

Ein­hverjir þing­menn hafa undrað sig á svo hörðum að­gerðum á meðan smitin í sam­fé­laginu eru ekki ná­lægt því sem mest var í síðustu bylgjum. Þar hafa komið upp spurningar um hvort yfir­lýst mark­mið stjórn­valda um að vernda heil­brigðis­kerfið og fletja kúrfuna hafi breyst og snúist nú frekar um að gera landið alltaf smitlaust.

„Mark­miðið er alltaf að lág­marka smit í sam­fé­laginu,“ segir Svan­dís við þessu. „Ég held að enginn geti á­kveðið það fyrir fram að það sé ein­hver til­tekinn fjöldi smita eða til­tekinn fjöldi veikra sem er hæfi­legur og síðan miðað allt út frá því. Mark­miðið verður að vera að lág­marka á­hættuna á smiti inn í landið og hindra út­breiðslu far­aldursins.“