Flugfreyjufélag Íslands, Samtök atvinnulífsins og Icelandair funduðu í dag hjá ríkissáttasemjara um kjaramál flugliða hjá Icelandair. Þetta var níundi fundurinn hjá ríkissáttasemjara í kjaradeilunni en samningar flugliða hjá Icelandair runnu út um síðustu áramót. Ljóst er að landslagið er talsvert breytt síðan samningar urðu lausir.

Samningsaðilar eru að tala saman og funda reglulega og það eru ýmsar hugmyndir sem hafa verið viðraðar. Það er samt ekki þannig að farið sé að sjá til lands, segir Berglind Hafsteinsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands. Það má segja að kröfur séu í takt við það sem var samið um í lífskjarasamningnum.

Boðað hefur verið til vinnufundar á þriðjudaginn í næstu viku. Það er að sjálfsögðu alltaf takmarkið að ná góðum samningum og klára það sem fyrst. Ég er bjartsýn og vonast til þess að við náum þessu fyrir sumarfrí, segir Berglind í samtali við blaðamann.

Í fyrra féll dómur Félagsdóms um lögmæti Icelandair til að setja flugfreyjum sem unnu hjá félaginu í hlutastarfi afarkosti um að taka við fullu starfi ellegar segja starfi sínu lausu. Flugfreyjufélag Íslands stefndi Icelandair vegna málsins. Berglind vill ekki gefa upp hvort verið sé að reyna að semja á ný um réttinn til hlutastarfs.

Aðspurð segir Elísabet Helgadóttir, framkvæmdastjóri mannauðs hjá Icelandair segir að nánast allir flugliðar hafi haldið áfram í kjölfar þess að vera færðir í fullt starf.

Viðræður hafa gengið ágætlega en staðan er snúin og það tekur tíma að komast að niðurstöðu, segir Elísabet um kjaradeiluna. Ytra umhverfið hefur vitaskuld áhrif á samningana, s.s. lífskjarasamningurinn, staðan varðandi MAX vélar félagsins, ásamt gjaldþroti WOW.

Aðspurð segir Elísabet að ekki hafi komið til uppsagna flugliða vegna MAX vandræðanna en færri hafi verið teknir inn í tímabundin störf yfir sumartímann en upphaflega var áætlað.