„Það er að verða mánuður sem við höfum aðeins getað framleitt 30 til 40 prósent af því sem við áætluðum,“ segir Björn Ingi Victorsson, forstjóri Steypustöðvarinnar, um skort á sementi hjá fyrirtækinu.

Björn segir að í lok október hafi myndast skortur á sementi vegna umframeftirspurnar víða um lönd. Skip sem komið hafi frá birgja þeirra í Danmörku, Aalborg Portland, til Þorlákshafnar á mánudaginn, hafi fært þeim mun minna sement en pantað var. Því hafi ekki verið leyst úr stöðunni núna um miðjan nóvember, eins og hann hafði talið að myndi gerast.

„Mér var sagt að þetta yrði búið þá en það verður ekki og ég sé ekki fyrir endann á þessu. Þetta heldur áfram,“ segir Björn.

Reyna að þjónusta flesta

Um afleiðingarnar segir Björn að nógu miklu muni til að hægagangur sé hjá fjölda viðskiptavina Steypustöðvarinnar, sem sé stærst á sínu sviði hérlendis.

Björn kveður ekki hægt að svara því hvernig Steypustöðin geti valið þá viðskiptavini sem fá afgreidda steypu. „Við reynum að þjónusta flesta en getum það samt ekki.“

Sementsverksmiðjan, sem selur sement til systurfyrirtækis síns hér, steypustöðvarinnar BM Vallár, hefur fengið nægt sement frá móðurfélagi þeirra beggja, Nordsem í Noregi. „En þeir geta ekki sinnt öllum markaðnum,“ bendir Björn á.

Inngrip lagar aðeins stöðuna

Í ljósi sterkrar stöðu Sementsverksmiðjunnar og BM Vallár á markaði kærði einn aðili, að sögn Björns, fyrirtækin tvö til samkeppnis­yfirvalda fyrir að að neita að selja öðrum framleiðendum sement. Eftir inngrip samkeppnisyfirvalda hafi þau fyrir um tveimur vikum sagst myndu afhenda takmarkað magn. „Þetta lagar stöðuna en ekki nógu mikið,“ ítrekar forstjóri Steypustöðvarinnar.