„Þegar maður sér svona skilaboð hér fyrir norðan þá bregður manni í brún. Þetta er mjög skuggalegt,“ segir Jóhann Helgi Heiðdal sem starfar hjá hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri.

Miðar sem hampa yfirburðum hins hvíta norræna manns og taka afstöðu gegn samkynhneigð hafa undanfarið verið límdir upp á fleiri en einum stað á Norðurlandi.

Hin græna ör er á sumum límmiðanna, merki samnorrænnar nýnasistahreyfingar á Norðurlöndunum. Vísað er til samtaka sem hófu starfsemi sína í Svíþjóð en hafa dreift sér um öll Norðurlöndin.

„Þetta eru merki samnorrænnar nýnasistahreyfingar,“ segir Jóhann.

Athygli Jóhanns á málinu vaknaði þegar hann fékk sendar myndir af límmiðunum. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins hafa skilaboðin verið birt í Reykjadal í Þingeyjarsveit og á Húsavík, svo tveir staðir séu nefndir.

Sumir stjórnmálamenn innanlands hafa kynt undir andúð og hatri á útlendingum að sögn Jóhanns.

„Það býr til jarðveg fyrir upplausnarástand og kyndir undir starfsemi svona hreyfingar,“ segir Jóhann.

„Það er búið að normalísera neikvæða umræðu um útlendinga,“ segir Jóhann og brýnir stjórnmálamenn til að tala með ábyrgum hætti um útlendinga á opinberum vettvangi.

Á einum límmiðanna er vísað á heimasíðu undir merkjum Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar. Síðan er vistuð í Svíþjóð. Meðal efnis þar eru viðtöl og greinar sem ekki verður betur séð en ætlað sé að kynda undir andúð.

Vísað er einnig á erlendar síður með öfgafullum skoðunum. Myndir fylgja af aktív­istum. Andlit þátttakenda hafa verið afmáð.

Á heimasíðunni segir um markmið Norrænu mótstöðuhreyfingarinnar að stöðva verði stórinnflutning á fólki til landsins. Stuðla beri að brottför fólks frá Íslandi sem ekki búi yfir norður-evrópskum uppruna.

Þá segir að skapa verði sjálfbært norrænt samfélag með sameiginlegum her, sameiginlegum gjaldmiðli og miðstýrðum banka. Innlendir og erlendir fjölmiðlar sem vinni gegn norrænu fólki verði bannaðir.

Ríkharður Magnússon er skráður fyrir skrifum á heimasíðunni. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins færði hann skrif sín frá íslenskri síðu yfir til Svíþjóðar og er stutt síðan hann birti síðast pistil á síðunni. Fréttablaðið reyndi að ná tali af Ríkharði án árangurs.

Norðurvígi er að sögn Eyrúnar Eyþórsdóttur, sérfræðings í hatursglæpum og lektors í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri, hluti samnorrænnar nýnasistahreyfingar þar sem talað fyrir uppgangi hvíta kynstofnsins.

„Þetta er mjög rasískt en hér á landi er líka núna verið að dreifa miðum þar sem talað er gegn samkynhneigð,“ segir Eyrún sem hafði heyrt af skilaboðunum á Norðurlandi.

„Þetta eru nýnasistar, það er engin spurning, þannig fjalla fræðin um þetta. Við erum að tala um forræðishyggju sem stendur vörð um hvíta kynstofninn, að hann byggi á menningarlegum arfi, sem stenst ekki skoðun.“

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri segir að lögreglan á Norðurlandi eystra kannist ekki við skilaboðin