„Það á ekki að þenja ríkið út bara af því bara og skilja svo reikninginn eftir fyrir næstu ríkis­stjórn,“ sagði Þor­björg Sig­ríður Gunn­laugs­dóttir, þing­maður Við­reisnar, í um­ræðum um störf þingsins á Al­þingi í dag.

Þor­björg gagn­rýndi fjár­laga­frum­varp ríkis­stjórnarinnar harð­lega og bendir á að vaxta­hækkanir Seðla­bankans hafi verið kvíða­efni á heimilum landsins undan­farna mánuði.

„Í allt sumar hefur fjár­laga­frum­varp verið í smíðum hjá ríkis­stjórninni, ríkis­stjórn þar sem sitja 12 ráð­herrar í 12 ráðu­neytum hjá 380.000 manna þjóð. Fjölgun ráð­herra og ráðu­neyta leiddi af sér kostnað upp á ein­hverja milljarða og við eigum senni­lega heims­met í fjölda ráð­herra miðað við höfða­tölu.“

Þor­björg benti á að fjár­laga­frum­varpið hljóði upp á tæp­lega 90 milljarða króna halla og fjórði stærsti út­gjalda­liður ríkisins sé vaxta­kostnaður.

Hvað með það þó að læknar í sér­námi er­lendis vilji ekki lengur koma heim eftir nám? Hvað með það þótt hjúkrunar­fræðingar hætti störfum?

„En skila­boð ríkis­stjórnarinnar eru alveg skýr: Hvað með það þótt út­gjöldin blási út án þess að þjónustan batni? Hvað með það þótt mikil­vægum fjár­festingum í inn­viðum sé frestað? Hvað með það þó að læknar í sér­námi er­lendis vilji ekki lengur koma heim eftir nám? Hvað með það þótt hjúkrunar­fræðingar hætti störfum? Hvað með það þó að að­staða á krabba­meins­deild Land­spítalans sé ó­boð­leg? Og hvað með það þó að heimilin séu að kafna vegna hækkandi lána? Er ekki bara best að hækka gjöld á heimilin? Krónu­tölu­gjöldin hækka.“

Þor­björg nefndi einnig að hér á landi væru hæstu á­fengis­skattar og -gjöld í Evrópu og stefnt væri að því að hækka þau enn frekar. Þetta gerðist þrátt fyrir að Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæðis­flokksins og fjár­mála­ráð­herra, hefði sagt að þessi gjöld væru komin að ystu mörkum.

„Fjár­laga­pólitík snýst í reynd um eina ein­falda en mikil­væga spurningu: Hvernig virkar sam­fé­lagið okkar best? Fjár­lögin eiga að vera leiðin að þessu mark­miði. Við eigum að fara vel með fjár­muni ríkisins. Við eigum að verja þeim í mikil­væga þjónustu í þágu al­manna­hags­muna. Það á ekki að þenja ríkið út bara af því bara og skilja svo reikninginn eftir fyrir næstu ríkis­stjórn.“