„Það þarf bara að sækja manninn, hann verður að koma hingað aftur ef við ætlum að gera þetta almennilega,“ segir Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna hjá Þroskahjálp, um mál Hassein Hussein sem sendur var til Grikklands í fyrrinótt.

Anna Lára segir íslensk stjórnvöld ekki geta staðið við skuldbindingar sínar gagnvart samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks öðruvísi.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hefur lögmaður fjölskyldunnar óskað eftir því að dómstólar láti sækja Hassein til Grikklands svo hann geti verið viðstaddur þegar mál hans verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 18. nóvember næstkomandi.

Lyfjalaus og með rangan hjólastól

Anna Lára segir samtökin hafa heimildir fyrir því að Hassein hafi verið sendur til Grikklands lyfjalaus og án rétts hjólastóls. Hann hafi ekki fengið að taka hjólastól sem hann við komuna hingað til lands sem hafi verið sérstaklega lagaður að hans þörfum. „Okkur finnst þetta alveg galið,“ segir Anna Lára og heldur áfram: „Við teljum þetta alls ekki samræmast neinu, hvorki lögum né mannúð eða því að vera almennileg manneskja. Maður kemur ekki svona fram við fólk.“

Allt annað en til Grikklands

Samtökin hafa fylgt máli Hasseins eftir í átján mánuði, alla götur frá því honum var synjað um vernd hér á landi. „Við skrifuðum greinargerð þar sem við lýstum þeirra afstöðu okkar að við teldum mjög mikilvægt að hann fengi vernd hérna. Líka vegna þess að við höfum verið í sambandi við systursamtök okkar í Grikklandi. Orðrétt var okkur sagt: Sendið hann allt annað en hingað,“ segir Anna Lára. Aðstæður fatlaðra flóttamanna í Grikklandi séu gríðarlega erfiðar.

Skelfing og örvænting

Anna Lára segir gríðarlega mikilvægt að mál Hasseins fari fyrir dóm, ekki eingöngu hans vegna heldur einnig fyrir aðra í sambærilegri stöðu. Mikilvægt sé að hann fái að tala sínu máli.

Aðspurð telur Anna Lára mjög ólíklegt að Hassein fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu í Grikklandi. Samtökin voru í sambandi við systur hans frá Grikklandi í gær, „hún náttúrulega lýsir bara fullkominni skelfingu og örvæntingu.“

Hafa óskað eftir neyðarfundi

Þroskahjálp hefur óskað eftir neyðarfundi með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, Guðmundi Inga Guðbrandssyni, félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra.

Anna Lára segir Katrínu hafa svarað og sagst ætla skoða málið og finna tíma fyrir fund. Félagsmálaráðuneytið hafi sagt málið í skoðun en enn sem komið er hafi ekkert heyrst frá dómsmálaráðuneytinu.

Þó Jón beri ábyrgð á útlendingamálum þá fari Katrín með mannréttindamál og Guðmundur Ingi með málefni fatlaðs fólks. „Þessi þrjú ráðuneyti þurfa öll að bera ábyrgð,“ segir Anna Lára að lokum.