Reykjavíkurborg bárust í febrúar 3.500 ábendingar frá íbúum um ófærð í íbúðagötum vegna snjóa.

„Það hefur verið erfitt að missa þetta svona í klakann en við erum á fullu eins og við höfum verið,“ segir Hjalti Guðmundsson, skrifstofustjóri reksturs og umhirðu borgarlandsins hjá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg mokar ekki snjó út í sjó eins og nágrannasveitarfélögin.

„Okkur hefur verið sagt að það að moka snjó út í sjó sé svokallað varp í hafið og geti verið óæskilegt út frá umhverfisáhrifum. Þess vegna erum við með okkar á þurru úti á Geldinganesi, en snjórinn lekur svo þaðan út í sjóinn hvort sem er,“ segir Hjalti.

Helgi Guðjónsson, verkefnisstjóri hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, segist vita að mörg sveitarfélög losi sig við snjó í sjó. Ekki sé um bann í borginni að ræða heldur fremur tilmæli. Snjór sem kunni að vera mengaður megi helst ekki fara í sjó nálægt ósum. Hins vegar henti ágætlega að aka honum í hafnir þar sem botnsvæði séu röskuð fyrir. Það væri til bóta ef sveitarfélögin kæmu sér saman um reglur sem næðu yfir allt höfuðborgarsvæðið.