Félag atvinnurekenda hefur sent Samkeppniseftirlitinu ábendingu um hvernig umsvif íslenskra kjötframleiðenda bjagi útboð tollkvóta á kjöti. Það er að þeir bjóði langhæst verð í kvótann og sölsi meirihluta hans undir sig. Einkum í kvóta á svínakjöti en einnig í öðrum vöruflokkum.

„Innlendir framleiðendur eru að spila á útboðskerfið og vinna gegn markmiðum tollkvótanna. Sem voru að stuðla að aukinni samkeppni og þar með lægra vöruverði,“ segir Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri félagsins.

Tollkvótakerfið hefur verið við lýði síðan árið 1995 og verið umdeilt. Lengst af hafa hæstbjóðendur fengið úthlutuðum kvóta en árið 2020 var sett á svokallað jafnvægisútboð, þar sem allir þátttakendur borga sama verð. Fyrri aðferð var notuð aftur í faraldrinum en jafnvægisútboðið tekur við á nýjan leik í haust.

Ólafur segir að íslenskir framleiðendur geti misnotað bæði þessi kerfi. Aðrar leiðir sem nefndar hafa verið eru hlutkesti sem Samkeppniseftirlitið hefur lagt til eða blönduð leið af hlutkesti og innflutningsreynslu sem Félag atvinnurekenda hefur lagt til. Það er að innflytjendur njóti þess að hafa fjárfest í viðskiptasamböndum og búnaði en jafnframt er opið fyrir nýliðun.

„Að okkar mati ætti Samkeppniseftirlitið að beina því til stjórnvalda að breyta þessu kerfi. Það væri eðlileg ráðstöfun að innlendum framleiðendum væri ekki gefinn kostur á að bjóða í tollkvóta,“ segir Ólafur. „Það liggur í hlutarins eðli að þetta hækkar verð á kjötinu úti í búð, bæði því erlenda og innlenda.“