Rúm­lega sjö­tíu nem­endur í 9. bekk grunn­skóla voru sendir heim úr Ung­menna­búðum UMFÍ á Laugar­vatni í gær eftir að einn nemandi greindist með Co­vid-19.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá UMFÍ.

Nem­endurnir komu í búðirnar á mánu­dag og hefðu að öllu ó­breyttu farið heim um há­degis­bil í dag. Skóla­stjórn­endum og for­eldrum nem­enda hafa verið upp­lýst um málið.

„Okkur þykir alveg ó­trú­lega leiðin­legt að smit hafi komið upp í búðunum. Það var búið að vera svo gaman hjá nem­endunum í vikunni og þeim liðið alveg frá­bær­lega vel á Laugar­vatni. Engum er um að kenna að svona fór. Við erum búin undir að­stæður eins og þessar og vitum að þær geta á­fram komið upp í sam­fé­laginu," er haft eftir Sigurði Guð­munds­syni, for­stöðu­manni UMFÍ.

Sigurður segir að strax hafi verið gripið til var­úðar­ráð­stafana og að málið hafi verið unnið í nánu sam­ráði við Al­manna­varnir og yfir­völd. Eftir að niður­staða úr Co­vid-prófum lá fyrir í gær­kvöld hafi verið tekin á­kvörðun um að senda alla nem­endur beint heim. Nú sé unnið að því að sótt­hreinsa hús­næði UMFÍ og að starfs­fólk fari í kjöl­farið í smit­gát og próf.

„Fyrst og fremst er þetta afar leiðin­legt fyrir smitaða nemandann. Ég vona að hann finni ekki mikið fyrir á­hrifum smitsins. Við munum að sjálf­sögðu halda á­fram að gæta að sótt­vörnum okkar og hrein­læti eins og við gerum alltaf," segir Sigurður.