Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs í neyðarstjórn, fylgist með yfirstandandi borgarstjórnarfundi í beinni heiman frá þar sem hún er stödd í sóttkví. Hún hrósar neyðarstjórn starfsfólki Reykjavíkurborgar fyrir góð viðbrögð við kórónaveirufaraldrinum.

„Næstu vikur geta orðið erfiðar en saman munum við komast í gegnum þetta.“

„Sem einn maður hefur neyðarstjórn og allt starfsfólk borgarinnar brugðist við Covid faraldrinum, og stilla nú saman strengi sína eins og alvöru sinfóníuhljómsveit öll að fara að spila sama verkið. Með aðdáun fylgist ég með, héðan úr sóttkví, starfsfólki Reykjavíkurborgar vinna nú sem ein heild að því að halda órofinni þjónustu fyrir borgarbúa.

Starfsfólk í velferðarmálum, skólum og frístund, íþróttum og menningu ásamt fjölmörgum í bakvarðasveitinni hafa brugðist við af miklu æðruleysi,“ skrifar Þórdís Lóa í færslu sem hún birti á Facebook rétt í þessu.

Orðlaus af hrifningu

Hún nefnir að teymið hjá Reykjavíkurborg hafi brugðist við fordæmalausum aðgerðum af ró og yfirvegun og hún hafi hvað eftir annað orðið orðlaus af hrifningu yfir fumlausum vinnubrögðum starfsfólks.

„Það er alltaf 1001 spurningu ósvarað og daglega berast fréttir af breyttu ástandi sem bregðast verður við.“

Þórdís Lóa sem dæmi um góð vinnubrögð séu viðbrögð umönnunarfólks og skólafólks á öllum menntastigum sem hafi brugðist hárrétt við þegar lýst var yfir neyðarástandi í síðustu viku.

„Næstu vikur geta orðið erfiðar en saman munum við komast í gegnum þetta,“ skrifar hún að lokum í færslunni sem má sjá hér fyrir neðan.