„Minnis­blaðið hefur fyrst og fremst þann til­gang að tryggja það að við fram­kvæmd kosninga verði farið eftir lögum og reglu­gerðum til þess að við getum búið til traust á kosningum,“ segir Ind­riði Ingi Stefáns­son, verkefnastjóri kosningaeftirlits Pírata og varaþingmaður, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Ind­riði sendi í dag minnis­blað vegna sveitar­stjórnar­kosninga til Öryggis- og sam­vinnu­stofnun Evrópu (ÖSE), í því bendir hann á það sem betur hefði mátt fara í kosningunum sem eru ný af­staðnar.

„Ég hef verið að reyna að vekja at­hygli á þessu en það hefur af­skap­lega lítið gengið. Ég á­kvað að það væri loka­punkturinn að leita til ÖSE, af því að kosningarnar voru ekki kærðar neins staðar,“ sagði Ind­riði.

Fjöl­þætt gagn­rýni í minnis­blaðinu

Ind­riði gagn­rýnir að kosninga­lögum hafi verið breytt einungis tveimur vikum fyrir kosningar. Í minnis­blaðinu segir hann reglu­gerðina í kringum kosningarnar hafa verið á­kveðin of seint svo að fólk sem vann að kosningunum hafði þá nauman tíma til þess að undir­búa sig fyrir kjör­dag.

Hann gagn­rýnir vilja­leysi hjá kjör­stjórn til þess að bregðast við á­róðri á kjör­stað en um­boðs­menn Pírata í Kópa­vogi, Reykja­vík, Hafnar­firði og sam­eigin­legt fram­boð Pírata og ó­háðra í Garða­bæ kærðu það sem þau kölluðu á­róður á kjör­stað en þau vildu meina að skilti sem sneru að utan­kjör­fundar­at­kvæða­greiðslu í Holta­görðum. Ind­riði sagðist ekki hafa fengið við­brögð við þeirri kæru.

Upp­röðun fram­boða á kjör­seðli var eitt af því sem Ind­riði gagn­rýndi. Í minnis­blaðinu bendir hann meðal annars á að röð fram­boða hafi ekki verið eftir staf­rófs­röð og því hafi sum fram­boð fengið betri stað­setningu á kjör­seðlinum en önnur.

„Þessi kjör­dagur, hann gengur ekki upp,“ segir Ind­riði og bætir við að kosningarnar séu haldnar á sama tíma og ungt fólk er í prófum og hefur ekki tíma til þess að kynna sér mál­efnin eða fram­boðin eða hefur jafn­vel ekki tíma til þess að kjósa. „Þetta er fólk sem við viljum endi­lega fá á kjör­stað,“ segir hann og bendir á að kosningarnar hefðu getað farið fram fyrr.

Indriði vekur athygli á því að skírteini sem framleidd voru samkvæmt tilskipun landskjörstjórnar hafi brotið persónuverndarlög. Umboðsmenn flokka og aðstoðarmenn þeirra þurftu að hafa merkt á skírteinunum hvaða framboð þau starfa fyrir. Hann segir stjórnmálaskoðanir vera viðkvæmt málefni og að svona eigi ekki heima á kjörstað.

Skírteinið sem Indriði þurfti að bera á kjörstað.
Mynd/Aðsend

Á ekki endi­lega von á svari

Að­spurður að því hvort hann eigi von á svari segir Ind­riði að hann eigi ekki sér­stak­lega von á því. „En hins vegar er ÖSE eftir­lits­aðili með kosningunum og mig langaði að senda þeim þessar niður­stöður sem ég hef úr því eftir­liti sem ég sinnti í kringum kosningarnar. Það er full mikið af vanda­málum sem ég fann við þetta eftir­lit sem ég sendi,“ bætir hann við.

Snýst ekki að em­bættis­mönnum

„Til­gangurinn með þessum at­huga­semdum snýst ekkert um að gera lítið úr ein­hverjum em­bættis­mönnum eða eitt­hvað svo­leiðis. Þetta er ein­göngu til þess að við getum skapað traust á kosningum,“ segir Ind­riði.

Óskað hefur verið eftir at­huga­semdum um kosninga­lög­gjöfina á sam­ráðs­gátt stjórn­valda. En þetta eru fyrstu kosningarnar sem haldnar eru undir þessum lögum. „Svo sannar­lega mun ég senda at­huga­semdir,“ segir Ind­riði, að­spurður að því hvort hann muni senda at­huga­semdir eða til­lögur.

Hann segir at­huga­semdir sínar munu að mestu leiti byggja á þeirri gagn­rýni sem hann sendi í minnis­blaðinu til ÖSE. „Þetta er hluti af þeim at­huga­semdum, ég mun fara yfir glósurnar mínar í kringum kosningarnar og senda inn um­sögn um það,“ segir hann.

Að lokum segir Ind­riði það þurfi að brýna fyrir fram­kvæmda­aðilum að það sé farið eftir lögum og reglu­gerðum. Úr­skurðar­nefnd kosninga­mála ætti að hans mati að vera að­gengi­legri. „Það á að vera hægt að leita til hennar á meðan kosningum stendur en ekki bara þegar þeim er lokið,“ segir hann og bætir við að allar at­huga­semdir hans um kosningarnar hafi strandað þar, hann segir kjör­stjórn ekki hafa sinnt á­kveðnum at­huga­semdum um­boðs­manna fram­boða.