Sendi­nefndir frá Finn­landi og Sví­þjóð verða sendar til Ankara í Tyrk­landi í von um að leyst verði úr þeirri and­stöðu sem Tyrkir hafa gegn aðild Finna og Svía að NATO, sendinefndirnar funda við yfirvöld í Tyrklandi á morgun. Utan­ríkis­ráð­herra Finn­lands greindi frá þessu í dag, þetta kemur fram í frétt frá AP.

And­staða Tyrkja hefur hægt á aðildar­ferli Finna og Svía en þau vonuðust til þess að eiga greiða leið að aðild í hernaðar­banda­laginu, en öll aðildar­ríki NATO þurfa að sam­þykkja um­sókn svo ríki geti gengið í banda­lagið.

Yfir­völd í Finn­landi og Sví­þjóð reyna með aðild að NATO að tryggja öryggi sitt en óttast hefur verið að Rússar beiti svipaðra að­gerða í ríkjunum tveimur og þeim í Úkraínu.

Yfirvöld í Tyrklandi lýstu yfir því að þau hefðu skil­yrði fyrir því að styðja aðildar­um­sókn Sví­þjóðar að NATO. Þau kröfðust þess að Svíar af­létti refsi­að­gerðum gegn Tyrk­landi, þar á meðal banni á vopna­út­flutningi. Þau kröfðust þess einnig að Svíar hætti „pólitískum stuðningi við hryðju­verk“, stöðvi fjár­mögnun hryðju­verka­hópa, stöðvi vopna­flutning til Verka­manna­flokks Kúrda og sýr­lenskra upp­reisnar­hópa.

Tyrkir segjast ekki ætla að gefa sig í við­ræðunum og þetta séu kröfur þeirra.