Helga Hauksdóttir, sendiherra Íslands í Danmörku, segir að fyrstu fregnir af skotárásinni í Fields verslunarmiðstöðinni í Kaupmannahöfn hafi verið óraunverulegar.

Helga býr í grennd við tvö sjúkrahús, um tíu kílómetrum frá verslunarmiðstöðinni, og heyrði sírenuvæl og sá ótalmarga lögreglubíla og sjúkrabíla þjóta framhjá heimili sínu eftir skotárásina.

„Ég varð vör við það í umhverfi mínu að það var eitthvað mikið í gangi,“ segir Helga, sem ræðir skotárásina og viðbrögð yfirvalda í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

Danskur karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um að hafa skotið þrjá til bana. Hann var leiddur fyrir dómara klukkan ellefu að íslenskum tíma í dag. Þrjú létust í skotárásinni, 17 ára danskur piltur, 17 ára dönsk stúlka og 47 ára rússneskur ríkisborgari. Þá eru fjögur alvarlega særð, þar af einn í lífshættu.

Vilja létta á hjarta sínu

Borgaraþjónustan og sendiráðið hefur sent út tilkynningar til Íslendinga í Danmörku að láta aðstandendur heima á Íslandi vita af sér. Sömuleiðis hefur borgaraþjónustan veitt ráðgjöf og aðstoð.

„Það spannar allan skalann hvað fólk þarf helst á að halda. Sumir þurfa bara aðeins að fá að létta á hjarta sínu og tala um það sem því finnst erfitt en aðrir þurfa ráðgjöf og vilja jafnvel komast burt frá viðkomandi stað,“ útskýrir Helga.

Hægt er að horfa á viðtalið í heild sinni á Fréttavaktinni í kvöld klukkan 18:30 hér á vef Hringbrautar.

Ef aðstoðar er þörf hafið samband við neyðarnúmer borgaraþjónustu, +354 545-0112.