Gerard Pokruszynski, nýjan sendiherra Póllands hér á landi, hafði alltaf dreymt um að heimsækja Ísland. Áður hefur hann meðal annars starfað sem ræðismaður í Mílanó, Malmö og á Sikiley og þá hefur hann unnið fyrir Pólverja í París og í pólska sendiráðinu í Kænugarði á meðan mótmælin á hinu fræga Maidan-torgi stóðu sem hæst.

„„Síðan skipaði ráðherra mér að fara til Íslands og það var mjög ánægjulegt. Mig hafði alltaf dreymt um að heimsækja Ísland. Ég átti ekki von á því að vera sendur í svona langa heimsókn,“ segir Pokruszynski.

Umdeild Helfararlög

Undanfarna daga hefur mikið verið deilt um nýsamþykkt frumvarp pólska þingsins sem gerir það refsivert að saka pólsku þjóðina, eða pólska ríkið, um að hafa borið ábyrgð á Helförinni. Verður þriggja ára fangelsisvist við brotinu.

Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og talsmenn Yad Vashem, ísraelska minningarsetursins um fórnarlömb Helfararinnar, eru á meðal þeirra sem gagnrýnt hafa frumvarpið. Kom meðal annars fram í yfirlýsingu frá Yad Vashem að með löggjöfinni væri reynt að fela þann „sagnfræðilega sannleik að pólskir einstaklingar hefðu aðstoðað Þjóðverja á meðan á Helförinni stóð“.

Nú liggur fyrir að forseti Póllands hefur skrifað undir frumvarpið. Hins vegar á eftir að senda það fyrir stjórnlagadómstól landsins.

Af þessu tilefni settist blaðamaður Fréttablaðsins niður með, og ræddi við, Pokruszynski sendiherra.

Myrt fyrir að fela gyðinga

„Ég vil byrja á því að segja þér frá Ulmów-fjölskyldunni. Það var pólsk fjölskylda sem bjó í Markowa og faldi þar átta gyðinga, tvær fjölskyldur, fyrir nasistum,“ segir Pokruszynski og bætir við að pólskur maður hafi síðan upplýst nasista um felustaðinn. Þá hafi þau öll verið drepin. Gyðingafjölskyldurnar, Józef og Wiktoria Ulmów, sem var ólétt, og sex ung börn þeirra. Pokr­uszynski segir söguna táknræna. Viðbrögð pólsku ríkisstjórnarinnar, sem hafi verið í útlegð í Lundúnum, hafi verið að hafa uppi á samverkamanninum, Włodzimierz Leś, og taka hann af lífi.

„Innan pólska ríkisins vorum við með nefnd sem hét Zegota. Hún leitaði að samverkamönnum nasista. Venjulega var dauðarefsing við slíku samstarfi. Þetta er sannleikurinn í málinu,“ segir Pokruszynski.

Sendiherrann segir að glæpamenn verði alltaf til. Á stríðstímum sé engin undanþága frá þeirri reglu. „Sérstaklega á þessum tíma, þegar pólska dómskerfið lá niðri og hagkerfið var í rúst. Glæpamenn, sérstaklega í upphafi stríðs, héldu að þeir kæmust upp með hvað sem er.“

Líkt og Ulmów-fjölskyldan segir Pokruszynski að um 70.000 Pólverjar hafi falið gyðinga í stríðinu í Varsjá einni. Við því hafi nasistar beitt dauðarefsingu. „Það þýðir að þessir Pólverjar hættu bæði eigin lífi og lífi barna sinna til að hjálpa gyðingum.“

Tekur sendiherra annað dæmi og nefnir Sabinski-hjónin. „Þau földu gyðinga, um hundrað talsins, í dýragarðinum í Varsjá. Hann fór daglega í gettóið til að fá matarleifar fyrir dýrin. En í hvert skipti smyglaði hann með sér fjölskyldum.“

Nasistum var hins vegar ekki bent á gjörðir hjónanna og nú sé ekki bara hægt að skoða dýr í dýragarðinum heldur einnig felustaði gyðinga.

Þjóðin og ríkið ekki ábyrg

„Staðreyndirnar eru eins og þær eru. Sumir störfuðu með nasistum. En við samþykkjum hins vegar ekki að pólska þjóðin, eða pólska ríkið, hafi borið ábyrgð á Helförinni. Alltaf þegar við heyrum slíku haldið fram særir það okkur. Okkur finnst þetta sagnfræðileg ósannindi sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Pokruszynski.

Hann bætir því jafnframt við að ekki verði gert ólöglegt að ræða um glæpi einstaklinga sem bentu á felustaði gyðinga. Löggjöfin snúist um að ekki verði leyfilegt að segja Pólverja í heild bera ábyrgð á voðaverkum nasista.

Sendiherrann bendir á tvö nýleg viðtöl við þá Sigmar Gabriel, fráfarandi utanríkisráðherra Þýskalands, og Moshe Arens, fyrrverandi utanríkisráðherra Ísraels.

„Gabriel sagði í vikunni að öll ábyrgðin á Helförinni væri Þjóðverja, þýska ríkisins. Arens sagði hið sama. Að ómögulegt væri að kenna Pólverjum um Helförina,“ segir Pokr­uszynski og bætir við:

„Eins og Moshe Arens sagði, Pólland var eina undantekningin í Evrópu. Þar var engin ríkisstofnun sem vann með nasistum. Það tíðkaðist annars staðar. Pólland gerði það ekki. En auðvitað er ekki hægt að neita því að einstaklingar hafi starfað með nasistum.“ Pokruszynski tekur þó fram að Arens sé ósammála löggjöfinni. Finnist hún ganga of langt.

Löggjöfin nauðsynleg

„Í áratugi höfum við sýnt þolinmæði og útskýrt að það sé rangt að tala um „pólskar útrýmingarbúðir“. Það er lygi. Það á sér enga stoð í raunveruleikanum. Þetta eru sagnfræðileg ósannindi. En þessi nálgun hefur ekki virkað. Þetta heyrist enn,“ segir Pokruszynski.

Sendiherrann bætir því við að nú hafi ríkisstjórnin og þingið ákveðið að samþykkja frumvarpið. Allir sem endurtaki orðin um „pólskar útrýmingarbúðir“ gætu sætt refsingu. Sú ákvörðun sé hins vegar dómstóla að taka, ekki stjórnmálamanna.

„Við viljum að saga okkar sé aðgengileg. Við viljum ekki hylma yfir neitt. Við viðhöldum og höldum opnum stöðunum þar sem þessi voðaverk voru framin. Við höfum byggt upp og viðhaldið þessum stöðum svo það sé hægt að heimsækja þá. Til að mynda Auschwitz, Stutthof, Majdanek, Treblinka og svo framvegis,“ segir Pokruszynski.

Um löggjöfina segir hann: „Nú var það bara að duga eða drepast. Þetta er okkar Rúbíkon. Það er ekki hægt að leyfa fólki að tala um „pólskar útrýmingarbúðir“ lengur. Það er ekki rétt.“ Þá segir hann að hvaða þjóð sem er myndi fá nóg eftir áratugi af staðhæfingum sem þessum.

Pokruszynski er ósammála því að löggjöfin muni hamla fræðastarfi og tjáningarfrelsinu, líkt og andstæðingar löggjafarinnar hafa haldið fram. Segir hann að aðstoðardómsmálaráðherra hafi átt fund með sendiherra Ísraela til að bera lögin undir hana. Sendiherrann hafi sagt að lögin mættu alls ekki hamla vísindamönnum og listamönnum. Annars væru þau í lagi.

„Eftir það bættum við þeirri klausu við frumvarpið að þessi svið væru undanskilin. En eftir samþykkt frumvarpsins ákveður sendiherrann samt að mótmæla því. Við vitum ekki hvort það sé vegna komandi kosninga í Ísrael eða hver ástæðan er yfirhöfuð.“

Aðspurður um hvort löggjöfin sé nauðsynleg segir Pokruszynski að ríkisstjórnin hafi sagt já, sem og þingið. „En mín persónulega skoðun, byggð á minni reynslu við að mótmæla þessari umræðu, er já.“

Hann segist jafnframt vona að löggjöfin muni virka á þann hátt að útrýma þessum staðhæfingum en leiða ekki til að neinum verði refsað. „Ég vona að þetta verði bara möguleiki sem þurfi aldrei að beita.“