Jef­frey Ross Gunt­er, fyrr­verandi sendi­herra Banda­ríkjanna á Ís­landim er sagður hafa hótað starfs­fólki og ollið því að sam­skipti við ís­lensk stjórn­völd versnuðu meðan hann var við störf milli 2019 til 2021.

Þetta kemur fram í skýrslu þar sem farið er yfir stöðuna í sendi­ráðinu en mbl.is greindi fyrst frá.

Sam­kvæmt skýrslunni til­kynntu starfs­menn sendi­ráðsins Gun­ter til innra eftir­litsins vegna hótana hans um að lög­sækja hvern þann sem var honum ó­sam­mála, virti ekki óskir hans eða virtist honum ó­trúr. Þá hótaði hann hefndum gegn þeim starfs­mönnum sem áttu í sam­skiptum við em­bættis­menn utan­ríkis­ráðu­neytisins í Banda­ríkjunum á meðn þeir gegndu opin­berum skyldum sínum hér­lendis.

Þá segir einnig að starfs­fólkið væri ekki enn búið að jafna sig nokkrum mánuðum eftir að hann fór vegna þess and­rúms­lofts sem ríkti undir hans stjórn. Sendi­herra­tíð hans ein­kenndist af hótunum og og ógnandi hegðun sam­kvæmt starfs­mönnum.

Í skýrslunni segir einnig að sam­band sendi­ráðsins við ís­lensku ríkis­stjórnina hafi versnað til muna í hans stjórnar­tíð. Gun­ter virti ekki diplómatískar siða­reglur eða neitaði að hafa sam­ráð við ís­lensk stjórn­völd um stefnu­mótunar og frétta­yfir­lýsingar um við­kvæm efni tengd varnar­málum.

Leiddi þetta meðal annars til þess að banda­ríska utan­ríkis­ráðu­neytið snið­gekk sendi­ráðið í sumum málum og átti bein sam­skipti við ís­lensk stjórn­völd.

Gun­ter var skipaður sendi­herra á Ís­landi af Donald Trump fyrr­verandi for­seta banda­ríkjanna árið 2019. Gun­ter skapaði sér ekki gott orð hér­lendis en Kveikur greindi frá því að hann óttaðist um líf sitt og vildi vopnaða líf­verði.

Þá sakaði hann einnig Frétta­blaðið um að flytja fals­fréttir og var gert mikið grín af honum á sam­fé­lags­miðlum í kjöl­farið.