Í gær birtist yfirlýsing frá rússneska sendiráðinu á Íslandi á Facebook þar sem Íslendingum er hótað vegna vopnaflutninga. Vísað er til flutninga utanríkisráðuneytisins á vopnum frá Ítalíu, Albaníu, Króatíu, Slóveníu og Portúgal.

Yfirlýsingin fjallar ekki aðeins um Ísland heldur vopnaflutninga Bandaríkjamanna, Þjóðverja og fleiri. Þrettán flugferðir Íslendinga, á vegum Air Atlanta og Bláfugls eru þó sérstaklega nefndar.

„Við vonum að íslensk stjórnvöld geri sér grein fyrir neikvæðum afleiðingum þessara aðgerða,“ segir þar. „Við vekjum athygli á að Rússland áskilur sér rétt til þess að líta á erlend hernaðargögn og búnað í Úkraínu sem löglegt skotmark.“

Í yfirlýsingunni er hins vegar ekki minnst á að íslensku flugvélarnar fljúga ekki með hernaðargögnin beint til Úkraínu. Heldur til austurhluta Póllands þaðan sem þeim er komið austur yfir landamærin.

Þrýst hefur verið á íslensk stjórnvöld að vísa Míkhaíl V. Noskov sendiherra úr landi. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð utanríkisráðherra hefur hefur sagst skilja þetta ákall. Þann 5. apríl sagðist hún ekki útiloka að vísa honum úr landi en síðan hefur ekkert gerst.

Mótmæli Úkraínumanna við sendiráðið í gær.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari