Ítalski sendiherrann í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó var myrtur er hópur uppreisnarmanna réðst á bílalest Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP) á mánudaginn. Sendiherrann, Luca Attanasio, tók við embætti sendiherra í landinu árið 2017 og var myrtur ásamt lífverðinum Vittorio Iacovacci og bílstjóranum Mustapha Milambo Baguma. Nokkrir aðrir í sjö manna bílalestinni særðust í árásinni.
Sendiherrann var á leið að heimsækja skóla þar sem WFP sinnir matvælaaðstoð. Innanríkisráðuneyti landsins fullyrðir, án þess að hafa birt fyrir því nokkrar sannanir, að árásarmennirnir tilheyri samtökunum Democratic Forces for the Liberation of Rwanda (FDLR). Samtökin urðu til eftir þjóðarmorðið í Rúanda árið 1994 er gerendur þess flúðu til Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Síðan þá hafa meðlimir samtakanna herjað á íbúa svæðisins sem ríkt er af góðmálmum.

@ItalyinKenya's flags at half mast to mourn the 🇮🇹 Ambassador to the DR of Congo, Luca Attanasio, the carabiniere Vittorio Iacovacci and driver Mustapha Milambo, victims of a vile attack to a UN convoy. Our deepest condolences to the families for such a tragic loss. pic.twitter.com/vb0BKqEimj
— Italy in Kenya (@ItalyinKenya) February 23, 2021
Segja öryggi vegarins hafa verið tryggt
Í yfirlýsingu frá WFP segir að bílalestin hafi verið á ferð um veg í nágrenni Virunga-þjóðgarðsins, sem er á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Hann er þekktastur fyrir fjölda dýrategunda sem þar má finna, einkum górillur. Búið hafi verið að tryggja öryggi vegarins en sérstök öryggisgæsla fylgdi ekki bílalestinni líkt og vani er þegar farið er í slíkar ferðir á svæðinu.
Þjóðgarðsverðir í Virunga komu til aðstoðar skömmu eftir árásina og fluttu Attanasio, sem skotinn var í kviðarholið, á sjúkrahús sem friðargæsluliðar á vegum Sameinuðu þjóðanna reka í borginni Goma. Borgin sem er skammt þaðan sem árásin varð gerð. Þar lést sendiherrann af sárum sínum.

Utanríkisráðherra Lýðstjórnarlýðveldisins, Ntumba Nzenza, segir rannsókn á árásinni í fullum gangi. „Ég lofa ítölskum stjórnvöldum að stjórn lands míns mun gera allt sem í hennar valdi stendur til að komast að því hver stóð að baki þessu viðurstyggilega morði,“ sagði hún í yfirlýsingu.
Rannsakendur á vegum Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamtaka segja að FDLR og aðrir uppreisnarhópar hafi arðrænt svæðið og rænt og myrt fjölda saklausra borgara undanfarna áratugi. Í fyrra létust um tvö þúsund óbreyttir borgarar á svæðinu og meira en fimm milljónir hafa þurft að flýja heimili sín síðastliðin tvö ár vegna ófriðar þar samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna.
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, vottaði ítalska utanríkisráðherranum samúð sína vegna morðsins á Attanasio.
I expressed my deepest condolences to Italian Foreign Minister @luigidimaio for the tragic loss of Ambassador Luca Attanasio and others, who worked to advance democracy, human rights, peace, and opportunity in the DRC.
— Secretary Antony Blinken (@SecBlinken) February 22, 2021