Eldur kviknaði í sendiferðabíl á Miklubraut, skammt frá göngubrúnni á milli Skeifunnar og Sogavegar, á níunda tímanum í morgun. Slökkvilið höfuðborgarsvæðis sendi lið á vettvang og var Miklubraut lokað á meðan slökkviliðsfólk var að störfum.

Alelda sendibíllinn vakti mikla athygli enda lagði mikinn reykjarmökk upp af bílnum sem þar að auki lenti í hremmingunum á tíma mikils umferðarþunga. 

Slökkvistörf gengu vel og engin slys urðu á fólki vegna eldsins. Varðstjóri slökkviliðsins sagði ekki ljóst hver upptök eldsins væru. Verið væri að rannsaka málið.

Miklabraut hefur aftur verið opnuð fyrir umferð og búið er að fjarlægja bílflakið.