Karlmaður á þrítugsaldri var dæmdur í átján mánaða fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa flutt inn rúm þrettán kíló af marijúana frá Kanada til Íslands.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. nóvember síðastliðinn og dómur kveðinn upp fimm dögum síðar, þann 15. nóvember.

Líkt og áður hefur komið fram var maðurinn staðinn að því að reyna að flytja inn þrettán kíló af marijúana til sölu- og dreifingar hér á landi. Efnin voru falin í verkfæraskáp sem var sendur með DHL póstsendingu.

Pakkinn var stöðvaður af tollgæslu á flugvellinum í Leipzig í Þýskalandi 31. júlí 2018 og áframsendur á íslenskt yfirráðasvæði og haldlagður strax við komuna til landsins.

Samkvæmt verknaðarlýsingu var sendingin stöðvuð af tollgæslu í Þýskalandi og áframsend á íslenskt yfirráðasvæði með samþykki stjórnvalda undir eftirliti lögreglu.
Fréttablaðið/Getty images

Löggan elti manninn frá DHL

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fékk pakkann 3. ágúst 2018 og skipti út fíkniefnunum fyrir gerviefni. Maðurinn hafði samkvæmt dómnum skráð vinkonu sína sem móttakanda pakkans og var búinn að greiða fyrir sendinguna. Fjórum dögum eftir að lögreglan skipti út efnunum sótti maðurinn pakkann í húsnæði DHL, Súðarvogi í Reykjavík, og ók svo að heimili sínu í Reykjavík.

Lögreglan veitti honum eftirför og fór inn í íbúð mannsins og kom að honum þar sem hann var að taka upp pakkann. Var hann þá handtekinn og ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot en hann játaði sök fyrir dómi.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku og féll dómur á mánudag.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Dómurinn ákvað að fresta fullnustu fimmtán mánaða refsingarinnar haldi maðurinn skilorð í tvö ár.

Eigur mannsins voru gerðar upptækar; tveir Apple-snjallsímar, Dell-fartölva, Apple-fartölva, kannabiskvörn, stafræn vog, pípur, minnisbækur, símkort, sýnapokar, verkfæraskápur og fíkniefni. Gerð eru upptæk rúm 13,4 kíló af marijúana, 0,01 g af metamfetamíni og ein tafla með vímu-efninu MDMA.