Þór­ólfur Guðna­son, sótt­varna­læknir, skilaði Svan­dísi Svavars­dóttur, heil­brigðis­ráð­herra tveimur minnis­blöðum um til­slakanir á sam­komu­tak­mörkunum vegna kórónu­veirunnar um helgina. Frá því greindi hann í við­tali í morgun­þættinum Í bítinu á Bylgjunni í morgun. Annað minnis­blaðið fjallar um að­gerðir innan­lands og hitt fjallar um sam­komu­tak­markanir í skólum en reglu­gerðin sem gildir um skólana rennur út 1. mars. Þór­ólfur sagði að til­slakanir væru byggðar á þeim skilningi að fólk væri enn að nota grímuna og átti ekki von á því að gríman yrði felld alveg strax.

Að vanda vildi Þór­ólfur ekki ræða inni­hald minnis­blaðanna og sagði að hann vildi gefa heil­brigðis­ráð­herra rými til að fara yfir inni­haldið.

Spurður hvort það mætti búast við því að til­slakanir yrði á fjölda­tak­mörkum sagði Þór­ólfur að það væri allt undir í því.

„Við erum að slaka á og erum búin að standa okkur gríðar­lega vel. Í síðustu viku vorum við með tvö smit innan­lands og báðir voru í sótt­kví við greiningu þannig þetta er að ganga mjög vel,“ sagði Þór­ólfur í Bítinu.

Koma í veg fyrir leka með hertum aðgerðum

Hann sagði að með því að herða á landa­mærum væri verið að reyna að loka fyrir mögu­lega leka inn í sam­fé­lagið.

„Það eru allar for­sendur fyrir því að slaka á,“ sagði Þór­ólfur.

Hann minntist þess samt að þegar síðast staðan var svona góð og slakað var á fóru smitin fljótt aftur upp. Þess vegna þurfi allir að halda sínu striki og sinna per­sónu­legum sótt­vörnum.

„Ef við vöndum okkur á okkur að takast þetta,“ sagði Þór­ólfur.

Þá var staðan þó allt önnur á landa­mærunum og landið mun opnara.

Þór­ólfur sagði að það væri á­kvörðun ráð­herra hve­nær til­slakanir taka gildi en að hann sæi það fyrir sér að til­slakanirnar tækju gildi fljót­lega. Hann sagðist ekki verið með sér­staka tíma­setningu en lagði til að nýjar reglur í skólum tækju gildi 1. mars.

90 þúsund skammtar

Þór­ólfur var einnig spurður út í þróun bólu­setningar og sagði að miðað við 90 þúsund skammta myndum við ná að bólu­setja 45 þúsund manns. Þór­ólfur sagði að okkar besta á­ætlun væri að ná góðri lang­tíma­vörn gegn veirunni og sagði að miklar vanga­veltur væru í gangi um hve­nær væri best að gefa seinni skammt.

Spurður út í rann­sóknin á Pfizer bólu­efninu í Ísrael sagði hann að niður­stöðurnar væru á­nægju­legar en að lítið væri vitað um hversu lengi hún virkar.

Hann sagði að engin dreifingar­á­ætlun væri frá og með apríl á bólu­setningum og að spáin í bólu­setningar­daga­talinu sem var birt byggi á því sem er búið að kaupa. Það gæti alltaf breyst af­hending á því.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni hér á vef Vísis.