Heilbrigðisstofnun Suðurnesja braut persónuverndarlög með því að senda Isavia upplýsingar um bólusetningar slökkviliðs- og sjúkraflutningamenn. Persónuvernd komst að þessari niðurstöðu þann 28. maí síðastliðinn og birti úrskurðinn á vef sínum í dag.

Sömuleiðis braut Isavia persónuverndarlög með því að áframsenda póstinn til allra starfsmanna flugvallarsviðs.

Landssamband slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna kvartaði til Persónuverndar í desember árið 2018 fyrir hönd félagsmanna sinna yfir meðferð Isavia ohf. og Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja á upplýsingum um tiltekna starfsmenn flugvallarsviðs.

Tölvupóstur með sjúkraskrárgögnum sent á allt starfsfólk

Sambandið greindi frá því að hjúkrunarfræðingur hja Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafi án samþykkis starfsmanna sent tölvupóst til verkefnastjóra Isavia sem innihélt lista yfir þá starfsmenn flugvallarsviðs sem óljóst var hvort hefðu verið bólusettir fyrir mislingum og hettusótt. Á listann voru skráð nöfn starfsmannanna, kennitölur þeirra og símanúmer og var sérstakur reitur fyrir athugasemdir við hvert nafn.

Reiturinn var ýmist tómur eða í hann ritað „Fann bólusetningarskírteini, mmr ekki skráð“ og í tölvupósti kom fram að í öðrum tilfellum hafi bólusetningarskírteini ekki fundist. Hjúkrunarfræðingurinn bað viðtakanda að spyrja starfsmenn hvort þeir hefðu verið bólusettir fyrir mislingum og hettusótt. Tölvupósturinn ásamt listanum var í kjölfarið áframsendur til allra starfsmanna flugvallarsviðs Isavia ohf.

Alveg óvart en ekki alvarlegt

Isavia sagði í svari við fyrirspurn Persónuverndar að tölvupósturinn hafi verið sendur fyrir mistök en að þetta væri ekki alvarlegur öryggisbrestur að þeirra mati. Ekki hafi verið heimild fyrir miðluninni.

Fyrirtækið hafi strax leitað leiða til að lágmarka áhrif miðlunarinnar og beðist afsökunar á mistökunum. Í kjölfarið hafi svo verið gengið frá vinnslusamningi við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og verklag Isavia varðandi sendingu persónuupplýsinga í tölvupósti uppfært.