Max Schwartzman, mennta­skóla­nemandi í South Windsor í Connecticut í Banda­ríkjunum, á­kvað í sumar að senda nær öllum þjóðar­leið­togum heimsins bréf.

Segja má að til­gangurinn hafi verið tvenns­konar; Schartzman á sér þann draum að starfa í banda­rísku utan­ríkis­þjónustunni og þá er hann rit­stjóri skóla­blaðsins, The Bob­cat Prowl, og langaði að skrifa grein um svörin sem hann fékk.

Verk­efni Schwartzman vakti athygli banda­rískra fjöl­miðla og ræddi staðar­miðillinn Fox61 við hann. Í við­talinu segist hann hafa eytt mörgum klukku­stundum í að skrifa alls 186 þjóðar­leið­togum bréf þar sem hann spurði einnar spurningar: „Hvað finnst þér að ungir Banda­ríkja­menn ættu að vita um þjóð þína eða þig?“

Það er skemmst frá því að segja að Schartzman fékk 20 svör til baka og var svar Guðna Th. Jóhannes­sonar, for­seta Ís­lands, ein­stakt. Það var nefni­lega eina bréfið sem var hand­skrifað. Schwarzman segir að svarið frá Guðna hafi af þeim sökum verið í upp­á­haldi hjá honum.

„Það var samt ekki bara það. Það var mjög fal­lega orðað og per­sónu­legt. Hann lét eftir­skrift fylgja í lok bréfsins þar sem hann talaði um að bærinn okkar (South Windsor) hafi verið stofnaður sama ár og Al­þingi Ís­lendinga var endur­reist. Hann minntist einnig á að einn af með­limum hljóm­sveitarinnar Toto væri frá South Windsor.“

Schwarzman fékk einnig svör frá ráða­mönnum í Litháen, Barba­dos, Sviss, Portúgal og Móna­kó svo eitt­hvað sé nefnt. Prinsinn í Móna­kó bauð honum meira að segja í heim­sókn.

Spurður hvort Schwarzman hafi ein­hver skila­boð til ungra Banda­ríkja­manna, eftir verk­efni hans í sumar, gerir hann orð Guðna Th. Jóhannes­sonar, for­seta Ís­lands, í bréfinu að sínum. Sagðist Guðni hvetja hann – og aðra jafn­aldra hans – meðal annars til að skoða heiminn með opnum hug, halda á­fram að vera for­vitinn og kynnast öðru fólki.