Landsréttur staðfesti í dag að karlmaður skyldi sæta nálgunarbanni gagnvart konu í sex mánuði. Í dómi Héraðsóms Reykjavíkur kemur fram að hann hafi sent nektarmyndir af konunni á 235 mismunandi tölvupóstföng. Hún fékk afrit af öllum póstunum sem voru 121 talsins.

Maðurinn áfrýjaði málinu til Landsréttar og krafðist þess að kröfunni um nálgunarbann yrði vísað frá. Rétturinn segir að samkvæmt rannsóknargögnum sé hann undir rökstuddum grun um að hafa sent konunni fjöldamörg símaskilaboð auk skilaboða með tölvupósti snemma þessa árs, þar sem koma fram smánandi og móðgandi athugasemdir í hennar garð.

Til viðbótar við andlega ofbeldið sé hann grunaður um að hafa beitt konuna líkamlegu ofbeldi á heimili hennar í janúar.

Fram kemur að háttsemin sem hann er grunaður um hafi raskað friði hennar verulega. Um það vitni læknisvottorð. Ekki fáist séð að friðhelgi hennar verði vernduð með öðrum hætti en nálgunarbanni.