Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sendi Liliane Maury Pasquier, forseta Evrópuráðsþingsins, erindi þar sem hann vekur athygli á því að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hafi gerst brotleg við siðareglur fyrir alþingismenn, fyrst þingmanna. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Þar kemur fram að bréfið hafi verið sent þann 9. desember síðastliðinn og segir Ásmundur í samtali við Moggann að sér hafi fundist þetta mikilvægt þar sem Þórhildur Sunna „rækti ekki störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika samkvæmt áliti forsætisnefndar og siðanefndar.“
Umrædd ummæli Þórhildar Sunnu þess efnis að rökstuddur grunur væri um að Ásmundur hefði dregið sér fé í tengslum við endurgreiðslur, sem hann þáði frá þinginu á grundvelli akstursdagbókar hans, féllu í þættinum Silfrinu á RÚV í febrúar í fyrra. Ásmundur kvartaði í kjölfarið til forsætisnefndar þingsins sem vísaði málinu til siðanefndar. Nefndin kvað á um að ummælin væru til þess fallin að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess.
Ásmundur segir nú að Evrópuráðsþingið hafi ítrekað lagt mikla áherslu á það við aðildarríki sín að þau setji siðareglur fyrir alþingismenn sem jafnframt feli í sér viðurlög. Þá hafi Evrópuráðsþingið sjálft sett sér siðareglur sem kveðið er á um viðurlög við brotum, til dæmis með skerðingu réttinda innan þingsins.
Bendir hann á að Evrópuráðsþingið hafi áður látið sig varða skipan Íslandsdeildar. Í samræmi við það ætti þingið nú einnig að láta sig varða þegar Íslandsdeildin skipar þingmann sem gerst hefur brotleg við siðareglur alþingismanna.