UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna næringarkrísu í kjölfarið af velferðarviðvörun UNICEF (e. child alert). Kemur fram að næringarkrísan á heimsvísu finni fyrir áhrifum stríðsins í Úkraínu, efnahagsþrenginga vegna Covid-19 og loftslagsbreytinga.

Í yfirlýsingu UNICEF kemur fram að fyrir stríðið í Úkraínu var búið að fjölga í hópi þeirra barna sem glímdu við alvarlega rýrnun en UNICEF óttast að víðtæk áhrif stríðsins séu að skapa hættuástand og matvælakrísu sem muni versna.

Telur UNICEF að minnsta kosti tíu milljónir barna á heimsvísu hafi ekki aðgengi að næringarríku jarðhnetumauki sem hefur reynst vel í meðferð við næringaskorti. Búist er við því að framleiðslukostnaðurinn á umræddu jarðnhentumauki hækki um 16 prósent á næstu mánuðum sem gæti haft áhrif á aðgengi 600 þúsund barna að þessari meðferð.

„Fyrir milljón börn ár hvert skilja þessir litlu pokar af jarðhnetumauki á milli lífs og dauða. Sextán prósenta hækkun hljómar viðráðanleg í alþjóðlegu samhengi matvöruverðs, en við enda þessarar aðfangakeðju er vannært barn sem á allt sitt undir,“ segir Catherine Russell, framkvæmdastjóri UNICEF.

„Áður en stríðið í Úkraínu fór að ógna matvælaöryggi um víða veröld voru átök, loftslagsbreytingar og heimsfaraldur COVID-19 að hafa skelfileg áhrif á getu foreldra til að gefa börnum sínum að borða. Heimurinn er á leifturhraða að verða púðurtunna fyrir sjúkdóma hjá börnum sem vel er hægt að koma í veg fyrir, sem og fyrir börn sem glíma við rýrnun.“

UNICEF á Íslandi hefur hafið neyðarsöfnun vegna þessarar vannæringarkrísu. Allar nánari upplýsingar um styrktarleiðir má finna hér á vef samtakanna.