Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, sendir samúðarkveðjur til aðstandenda þeirra sem hafa látist hér á landi af völdum kórónaveirunnar.

„Í þeirri viku, sem nú er senn liðin, létust tveir til viðbótar hér á landi af völdum veirunnar skæðu,“ skrifar forsetinn en alls hafa þrír einstaklingar látist hér á landi af völdum COVID-19 að því er fram kemur á upplýsingasíðu Landspítalans.

„Fyrir hönd okkar Elizu votta ég ástvinum þeirra innilega samúð,“ segir forsetinn í vikupistli sínum á Facebook.

„Verum hluti lausnarinnar, ekki vandans“

Guðni biðlar til Íslendinga að hlýða Víði og ferðast frekar innanhúss heldur en innanlands um páskana.

Einnig hvetur hann landsmenn að taka þátt í þjóðarátakinu „Tími til að lesa“ sem snýst um að lesa sér til yndis og fróðleiks – og setja jafnvel heimsmet á þeim vettvangi.

„Lestur er ljúfur, styttir stundir, eykur vit og örvar sköpun,“ segir forsetinn í vikupistli sínum á Facebook.