Rauði krossinn á Íslandi hefur veitt rúmlega 28 milljónum íslenskra króna til mannúðaraðgerða í Sómalíu með stuðningi utanríkisráðuneytisins og styrkjenda sinna frá byrjun ársins. Sömu upphæð var varið árið 2021. Þetta kom fram í fréttatilkynningu á heimasíðu íslenska Rauða krossins þar sem farið er yfir yfirstandandi neyðarástandi í Sómalíu og á horni Afríku.

Í tilkynningu Rauða krossins kemur fram að næstum 700 þúsund íbúar Sómalíu hafi neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna matar- og vatnsskorts, atvinnuleysis, uppskerubrests og þurrka. Loftslagsbreytingar hafi stuðlað að búfjárdauða og eyðileggingu uppskeru auk þess sem kórónuveirufaraldurinn hafi áhrif og hækkun eldsneytisverðs í kjölfar innrásarinnar í Úkraínu hafi stuðlað að hærra matvælaverði um alla Afríku.

Rauði krossinn segir að óttast sé að neyðin vegna þurrkanna í ár verði ein sú versta í 40 ár og að rúmlega 20 milljónir af íbúum á horni Afríku komi til með að þurfa á brýnni fæðutengdri aðstoð næstu tólf mánuðina. Brýnt sé að athygli sé beint að fæðuöryggi íbúa í Afríku til að koma í veg fyrir hungursneyð.